Máttu ekki undanskilja kostnað

Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur nú staðfest að öll smálánafyrirtæki hafi brotið lög með því að taka gjald sem þau innheimta vegna lánshæfismats út fyrir sviga þegar lántaki fær upplýsingar um heildarkostnað við lán.

Neytendastofa hefur lagt dagsektir á smálánafyrirtækin Smálán og Kredia og líkur eru á að einnig verði lagðar dagsektir á Hraðpeninga, 1909 og Múla, til viðbótar við fyrri stjórnvaldssektir, fari þau ekki að tilmælum um breytta viðskiptahætti.

Áfrýjunarnefnd neytendamála staðfesti í gær að smálánafyrirtækin Hraðpeningar, Múla og 1909, sem öll eru í eigu Neytendalána ehf., hafi brotið lög um neytendalán með því að halda kostnaði sem þau rukka fyrir lánshæfismat utan við uppgefna árlega hlutfallstölu kostnaðar, sem skylt er að veita lántaka upplýsingar um þegar lán er tekið.

Áður hafði áfrýjunarnefndin staðfest ákvörðun Neytendastofu gagnvart Smálánum og Kredia um að þau hefðu brotið lögin með sama hætti.

Brot fyrirtækjanna snúa að því hvernig þau birta heildarlántökukostnað. Samkvæmt lögunum um neytendalán má árleg hlutfallstala kostnaðar ekki vera hærri en 50%. „Árlegri hlutfallstölu kostnaðar skal lýst sem árlegu hlutfalli af heildarfjárhæð sem neytandi greiðir,“ segir í lögunum. Smálánafyrirtækin rukka lántaka fyrir að gera lánshæfismat og hjá þeim kostar lánshæfismatið 5.500 krónur sé lánið afgreitt strax.

Kostnaður vegna matsins er hins vegar ekki tekinn með í útreikning þeirra á árlegri hlutfallstölu kostnaðar, sem samkvæmt lögunum á að endurspegla heildarkostnað við lántökuna. Forsaga málanna er sú að í júní 2014 tók Neytendastofa tvær ákvarðanir og beitti í fyrsta sinn stjórnvaldssektum vegna brota á lögum um neytendalán.

Gefa upp 55% kostnað þegar reyndin er 3.214%

Önnur ákvörðunin sneri að Smálánum ehf. og Kredia ehf., sem eru í eigu sama aðila, og í henni segir að fyrirtækin hafi brotið gegn 26. grein laga nr. 33 um neytendalán „með því að innheimta kostnað af lánum sem nemur 3.214,0% árlegrar hlutfallstölu kostnaðar“.

Smálán og Kredia skutu málinu til áfrýjunarnefndar neytendamála sem í staðfesti ákvörðun Neytendastofu í nóvember 2014. Fyrirtækin hafa ekki breytt viðskiptaháttum sínum og því var tilkynnt í vikunni að Neytendastofa hygðist beita þau dagsektum. Fyrirtækin geta áfrýjað þeirri ákvörðun á ný til áfrýjunarnefndar neytendamála innan tveggja vikna.

Hin ákvörðunin sem Neytendastofa tók í júní í fyrra sneri að Neytendalánum ehf. sem veitir smálán undir merkjum Hraðpeninga ehf., Múla ehf. og 1909 ehf. Taldi Neytendastofa þau hafa brotið gegn 26. grein laga nr. 33 um neytendalán „með því að innheimta kostnað af lánum sem nemur 2.036,6% árlegrar hlutfallstölu kostnaðar“.

Ákvörðuninni var einnig skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem skilaði sinni niðurstöðu í vikunni um að hún staðfesti þá ákvörðun Neytendastofu einnig.

Öllum fimm fyrirtækjunum var gert að greiða 250.000 krónur í stjórnvaldssektir, en með dagsektarákvörðuninni þurfa Smálán og Kredia nú að greiða sömu upphæð dag hvern þar til þau breyta sínum háttum. Líklegt verður að teljast að hin fyrirtækin verði einnig beitt dagsektum fari þau ekki eftir fyrri ákvörðunum um breytta hætti.

Gögn um viðskiptahætti smálánafyrirtækja liggja ekki á lausu. Líkt og komið hefur fram í umfjöllun Morgunblaðsins um smálánafyrirtækin eru þau ekki starfsleyfisskyld og ekkert opinbert eftirlit er með starfsemi þeirra.

Neitað um lán nema greiða flýtigjald

Samkvæmt upplýsingum blaðamanns eru dæmi um að smálánafyrirtæki búi beinlínis til hvata fyrir lántakendur til að greiða hið svokallaða flýtigjald sem þau segja að fari til greiðslu á lánshæfismati.

Þetta gera fyrirtækin með því að neita fólki um lán nema það greiði flýtigjald, sem aftur hækkar kostnað lánsins frá hinum löglegu 50% upp í áðurnefndar prósentutölur sem hlaupa á þúsundum.

Lántaki sem átt hefur viðskipti við smálánafyrirtæki fékk neitun um lán þegar hann valdi möguleikann að bíða í átta daga eftir að fá lánið afgreitt, ástæðan sögð sú að lánshæfismat hans væri ekki nógu gott. Neitunin barst viku eftir að sótt var um, en þann sama dag sótti hann aftur um lán, en þá með flýtigjaldi, og sú umsókn var samþykkt og smálánið afgreitt án vandkvæða. Með öðrum orðum þá var umsækjandi ekki metinn hæfur til að fá lán án flýtigjalds en þegar hann lýsti sig reiðubúinn til að greiða gjaldið var lánshæfi hans skyndilega talið betra.

Mat á lánshæfi einstaklinga breytist ekki frá degi til dags eða frá viku til viku. Áður hefur komið fram í umfjöllun um þessi mál að dæmi er um lántaka sem tók 13 smálán á fimm dögum og í hvert skipti var gert nýtt lánshæfismat, jafnvel þótt lánin væru tekin hjá sama fyrirtæki. Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo hefur það ekkert upp á sig að kanna lánshæfi einstaklings oft með stuttu millibili.

Lánshæfismat er spá um líkindi á alvarlegum vanskilum á næstu 12 mánuðum. Ítrekaðar uppflettingar á t.d. 30-60 daga tímabili hafa því mjög takmarkað gildi.

40 til 60 sinnum dýrara að taka smálán en gefið er upp

Með nýjustu niðurstöðu Áfrýjunarnefndar neytendamála hefur verið staðfest að smálánafyrirtækin gefa upp kostnaðartölur til lántaka sem eiga ekki við rök að styðjast. Raunkostnaður lánanna er 40-60-falt hærri en tölur þeirra um heildarkostnað, mældar sem árleg hlutfallstala kostnaðar, segja til um.

Neytendur sem hafa átt viðskipti við smálánafyrirtæki og telja sig hlunnfarna geta farið með mál sín til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki sem vistuð er hjá Fjármálaeftirlitinu. Upplýsingar um nefndina og hvaða gögn þurfa að fylgja málum sem henni eru send má finna á www.fme.is með því að smella á eftirlitsstarfsemi og því næst úrskurðarnefndir.

Nú þegar hafa tvö mál borist nefndinni vegna smálánafyrirtækja.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK