Tekjur Spalar af veggjaldi í Hvalfjarðargöngunum í fyrra námu 1.136 milljónum króna. Það er 4,1% aukning á milli ára. Umferðin í göngunum jókst um 2,7% í fyrra, sem er svipað og verið hefur undanfarin tvö ár.
Spölur, sem á og rekur Hvalfjarðargöng, birti ársuppgjör 2014 í Kauphöll Íslands í dag vegna sextánda fjárhagsárs félagsins.
Hér að neðan má sjá helstu niðurstöðu ársuppgjörsins:
- Hagnaður eftir skatta nam 445 milljónum króna á rekstrarárinu 2014 en var 355 milljónir króna 2013.
- Hagnaður eftir skatta á 4. ársfjórðungi 2014 nam 56 milljónum króna en var 38 milljónir króna á sama tímabili 2013.
- Greiðsluflæðið gefur betri mynd af gangi félagsins vegna þess að vísitöluhækkanir lána dreifast til greiðslu til loka lánstímans 2018. Félagið greiddi um 643 milljónir króna í afborganir og vexti 2014 en 657 milljónir króna 2013.
- Tekjur af veggjaldi námu 1.136 milljónum króna 2014 en 1.091 milljón króna 2013.
- Rekstrarkostnaður án afskrifta var 335 milljónir króna en var 329 milljónir króna 2013. Kostnaður jókst vegna viðhalds, rafmagns og launa en lækkaði vegna trygginga.
- Afskriftir námu 121 milljón króna en voru 120 milljónir króna 2013.
- Fjármunatekjur og fjármunagjöld lækkuðu um 74 milljónir króna frá fyrra ári.
- Skuldir Spalar námu 3.101 milljón króna í lok árs 2014 en voru 3.473 milljónir króna í lok árs 2013. Þær lækkuðu þannig um 372 milljónir króna á liðnu ári, sem skýrist aðallega af afborgunum langtímalána.