Má ekki fækka búðum í miðbænum

Ekki er heimilt að breyta verslunum á jarðhæð á Skólavörðustíg …
Ekki er heimilt að breyta verslunum á jarðhæð á Skólavörðustíg í veitingastaði eins og staðan er í dag. Rax / Ragnar Axelsson

Eins og staðan er í dag er ekki hægt að lækka frekar hlutfall smásöluverslunar á jarðhæð við Bankastræti, Laugaveg og Skólavörðustíg vegna starfsemiskvóta Reykjavíkurborgar. Sæki menn um að breyta starfsemi verslunar í veitingahús á þessum svæðum verður því synjað. 

Þetta kemur fram í samantekt umhverfis- og skipulagssviðs á stöðu götukvóta við fyrrnefndar götur. Þar segir að götuhliðarnar sem lúta ákvæðum um 70% lágmark smásöluverslunar og 50% lágmark smásöluverslunar séu undir viðmiðum. Við breytingar á starfsemi skuli því stuðla að því að auka hlutfall smásöluverslunar á svæðunum.

Engin ein notkun verði ríkjandi

Í miðborg Reykjavíkur eru í gildi götukvótar er varða starfsemi annars vegar og útlit og virkni hins vegar en markmið þeirra er að vernda og efla smásöluverslun. Þeim er ætlað að stuðla að fjölbreyttri starfsemi, styrkja samþjöppun smásöluverslunar og samfellu í verslunargötum, stuðla að heildarmynd og efla mannlíf.

Kvótarnir eiga þó aðeins við um jarðhæðir bygginga þar sem götuhliðarnar eru taldar hafa margs konar áhrif á ásýnd og andrúm göturýmisins.

Kvótarnir eiga rætur að rekja til þróunaráætlunar miðborgarinnar sem var samþykkt á árinu 2000 og koma fram í aðalskipulagi borgarinnar frá 2010 til 2030. Í þróunaráætluninni kemur fram að hefð sé fyrir margvíslegri notkun húsnæðis í miðborgarkjarnanum, hjarta Reykjavíkur, og að borgaryfirvöld vilji styrkja sérkenni hans og stuðla að því að engin ein notkun verði ríkjandi. „Því verður leitast við að halda jafnvægi milli hinna ýmsu þátta þeirrar margvíslegu notkunar sem hæfir þessum hluta borgarinnar,“ segir í þróunaráætluninni.

Væri veitingastaður í flestum rýmum

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir skipulagsfulltrúa fara eftir kvótareglunum og því komi mál ekki til umfjöllunar hjá ráðinu ef starfsemi fellur ekki innan hlutfallsins sem hann tekur fram að sé mismunandi á hverjum tíma. „Línurnar eru alveg skýrar,“ segir hann. „Menn eru almennt sammála um að það væri komið kaffihús eða veitingahús í flest rými ef reglurnar hefðu ekki verið settar,“ segir hann og bætir við að þær séu að breskri fyrirmynd.

Þriggja prósenta skekkjumörk eru þó heimil frá settu hlutfalli en við Bankastræti og Laugaveg upp að Klapparstíg, þar sem kveðið er á um 70% lágmark verslunar, er hlutfallið nú 63%. Á Laugarvegi milli Klapparstígs og Vatnsstígs þar sem hlutfallið á einnig að vera 70%, er hlutfallið 67%. Sama staða er á Skólavörðustíg frá Bankastræti og að Týsgötu þar sem hlutfallið er 64%.

Þá er hlutfall verslana enn lægra á Skólavörðustíg frá Týsgötu að Baldursgötu, eða 24%, en kveðið er á um 50% lágmarks smásöluverslun. 

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs.
Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs. Rax / Ragnar Axelsson
Kvótarnir voru settir til þess að stuðla að samfellu í …
Kvótarnir voru settir til þess að stuðla að samfellu í verslunargötum. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK