Sérfræðingar spá því að verð á kakói muni nær tvöfaldast á næstu fimm árum. Súkkulaði muni því óumflýjanlega hækka í verði og svo gæti farið að páskarnir í ár verði þeir síðustu þar sem súkkulaði er enn ódýrt, að því er fram kemur í umfjöllun The Guardian um málið.
David Guest, prófessor í plöntufræði við Sydney-háskólann, segir allt benda til þess að kakóverð hækki á næstu árum. Það sé bæði kostnaðarsamt og taki langan tíma að rækta kakó.
Hann bendir meðal annars á að mikið vinnuafl þurfi til þess að rækta kakóbaunir en að framboð á vinnuafli hafi hins vegar dregist saman undanfarið. Ástæðan sé sú að fólk er í meira mæli að flytja úr sveitinni og í þéttbýlið. Þá fari heilsa fólks hrakandi.
Þá séu um 70% af kakóbaunum framleitt í vesturhluta Afríku, en miklar stjórnmála- og félagslegar breytingar hafa átt sér þar stað undanfarna áratugi.
Í umfjöllunni kemur enn fremur fram að eftirspurn eftir súkkulaði sé að aukast mikið á markaðssvæðum þar sem neytendur hafi ekki sýnt því mikinn áhuga hingað til. Til dæmis sé eftirspurnin að stóraukast sjö sinnum hraðar í Asíu en í Evrópu. Erfitt, ef ekki ómögulegt, sé að anna allri þessari eftirspurn.