„Við erum öll með misjafnar þarfir“

Jón Ingi Hrafnsson keypti kynlífstækjabúðina Rómantík.is í lok síðasta árs.
Jón Ingi Hrafnsson keypti kynlífstækjabúðina Rómantík.is í lok síðasta árs. Kristinn Ingvarsson

„Við erum öll með misjafnar þarfir og það gerir okkur æðisleg,“ segir hinn 24 ára gamli Jón Ingi Hrafnsson, sem keypti kynlífstækjabúðina Rómantík.is í lok síðasta ár og opnaði nýja verslun í Skeifunni í síðasta mánuði. Hann ætlar að hafa búðina fágaða og vera með BDSM sýningarsal.

Jón Ingi hefur starfað árum saman í veitingabransanum og langaði til þess að fara út í verslunarrekstur. „Þarna var um að ræða rótgróinn rekstur og ég sá fyrir mér tækifæri til þess að byggja hann upp og gera stærri,“ segir hann. „Mig langaði að gera eitthvað öðruvísi.“ Hann segir fyrra húsnæði verslunarinnar á horni Frakkastígs og Hverfisgötu hafa verið allt og lítið og telur stærra rými í Skeifunni henta mun betur.

BDSM sýningarsalur

Hann segist taka eftir auknum áhuga á BDSM leikföngum eftir gífurlegar vinsældir 50 Shades of Grey bókanna og kvikmyndarinnar. „Umræðan hefur verið að opnast og fólk virðist vera að fikra sig meira áfram,“ segir Jón Ingi, sem ætlar að hagnýta sér þetta og opna BDSM sýningarsal í versluninni í maí.

„Í salnum verður kynlífsróla og allur þessi helsti búnaður sem er notaður. Það er hvergi hægt að sjá þessar vörur almennilega á Íslandi og við ætlum bara að taka þetta skrefinu lengra,“ segir hann. „Það verður spennandi að sjá hvernig þetta mælist fyrir. Áhuginn er að minnsta kosti til staðar. Það er ekki af ástæðulausu sem allir hlupu til að kaupa sér bókina þegar hún kom út,“ segir hann glettinn. „BDSM þarf ekki að vera eins gróft og fólk heldur. Í 50 shades of Grey er til dæmis sadómasókískt BDSM en við viljum kynna allan skalann betur fyrir fólki,“ segir hann en bendir þó á að ekki megi prófa tækin. Hins vegar sé hægt að fá leiðbeiningar um notkun þeirra.

Hann segir megináhersluna þó ekki vera á þessar vörur, heldur sé hann einfaldlega að sinna eftirspurn. Aðspurður hvort vinsældir einhverrar vöru hafi komið á óvart bendir hann á ýmis ástarleikjaspil sem eru mikið keypt. Þrátt fyrir að Rómantík.is sé einnig með vefverslun segir hann að búðin sé sterkari hluti rekstrarins og bætir við að fólk vilji gjarnan sjá vörurnar áður en það kaupir. 

Kom fjölskyldunni á óvart

Auk þess að ætla að setja upp fyrrgreint sýningarrými hyggst Jón Ingi einnig vera með setustofu þar sem hægt verður að taka við allt að 25 manna hópum í kynningar. Nú er verið að koma rýminu í stand en hann reiknar með að geta farið að taka á móti hópum í kringum fjórtán ára afmæli verslunarinnar þann 17. maí nk.

Jón Ingi segist hafa lagt mikið upp úr því að hafa búðina stílhreina og í hærri klassa en áður var. „Við sáum tækifæri til þess að gera búðina hlýlegri og vinalegri.“

Auk þess að leggja áherslu á að búðin líti vel út og hugsar Jón Ingi ekki síður um útlit starfsmanna. Sjálfur segist hann alltaf vera í leðurbuxum og stuttermabol í vinnunni. „Ég klæðist því til þess að opna umræðuna. Til þess að fólki líði ekki óþægilega með leita ráða.“

Aðspurður hvort hann hafi mætt einhverjum fordómum þegar hann ákvað að fara út í þennan rekstur segir hann ákvörðunina hafa komið fjölskyldunni nokkuð á óvart. „Ég er ungur og það var kannski það helsta,“ segir Jón Ingi, sem einungis er 24 ára gamall. „En ég held nú að fjölskyldan sé að sætta sig við þetta,“ segir hann léttur í bragði og bætir jafnframt við að hann sé eini samkynhneigði maðurinn í þessum rekstri á landinu. „Ég hef lært mikið á þessum stutta tíma og það hefur vissulega margt komið á óvart.“

Tengdi búðina við vændi

Spurður hvað helst hafi komið á óvart minnist hann þess að maður hafi komið inn í verslunina og spurt hvort hann gæti bent á einhvern sem væri að stunda vændi. „Ég varð mjög hissa og það var frekar óþægilegt. Við komum náttúrulega ekkert nálægt því en þarna virðist hafa verið einhver tenging hjá honum,“ segir hann. „Annað hefur bara verið eðlilegt en það er kannski bara vegna þess að ég er sjálfur svo opinn.“

„Það er ekkert sem heitir óvenjulegt í kynlífi. Maður getur ekki farið út í þennan rekstur og verið á móti ákveðnum hlutum. Það er bara frábært að vera öðruvísi,“ segir Jón Ingi að lokum.

BDSM sýningarsalur verður opnaður í búðinni í maí en þar …
BDSM sýningarsalur verður opnaður í búðinni í maí en þar verður m.a. kynlífsróla. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK