Samkvæmt greiðsluuppgjöri ríkissjóðs fyrir janúar og febrúar 2015 versnaði handbært fé frá rekstri versnaði verulega milli ára og var neikvætt um tæpa 48,2 milljarða króna samanborið við jákvætt handbært fé upp á 5,3 milljarða króna á sama tíma í fyrra.
Þetta skýrist að stærstum hluta með útgreiðslum vegna leiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána sem gjaldfærðar voru í lok árs 2014 en komu til greiðslu í janúar. Innheimtar tekjur lækkuðu um rúma 3 milljarða króna milli ára en greidd gjöld jukust um 14,8 milljarða.
Innheimtar tekjur drógust þá saman um 2,9% milli ára og námu 101,7 milljörðum króna á fyrstu tveimur mánuðum ársins.
Samdrátturinn skýrist fyrst og fremst af óreglulegum liðum, svo sem eftirstöðvum frá fyrri árum og vaxtatekjum af skattskuldum, en einnig segir til sín brottfall auðlegðarskatts og almennra vörugjalda um sl. áramót.
Innheimtar tekjur af eignasköttum námu 1,3 milljarði króna drógust saman um 12,9% milli ára og líkt og að framan segir skýrist það af brottfalli auðlegðarskatts sem var lagður á í síðasta skipi í júlí í fyrra.
Innheimtur af virðisaukaskatti jukust um 5,3% milli ára og námu 28,7 milljörðum króna. Tekið er fram að áhrifa kerfisbreytingarinnar um sl. áramót, þegar bilið á milli skattþrepa virðisaukaskattsins var þrengt frá báðum áttum, mun fyrst gæta verulega í tölum aprílmánaðar.
Tekjur af tollum og aðflutningsgjöldum drógust þá saman um 19,4% á milli ára og námu 0,8 milljörðum króna, sem er 0,1 milljarði undir áætlun.
Greidd gjöld námu 113,8 milljörðum króna og jukust um 14,8 milljarða frá fyrra ári, eða um 15% sem var í samræmi við það sem gert hafði verið ráð fyrir.
Svokölluð „önnur útgjöld“ jukust mest, eða um 321%, og námu 11,9 milljörðum á tímabilinu samanborið við 2,8 milljarða króna á fyrra ári. Þessi aukning milli ára skýrist að stærstum hluta með niðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána en greiðslur tímabilsins námu 8,9 milljörðum. Þá námu útgjöld vegna lífeyrisskuldbindinga og eftirlauna rúmum 1,9 milljörðum króna.