Spáir verðstríði á flugmarkaði

Vél Ryanair
Vél Ryanair AFP

Það væri kjánalegt að búast ekki við rosalegu verðstríði frá samkeppnisaðilum sem geta ekki keppt við lægstu fargjöld Ryanair. Þetta sagði stofnandi og forstjóri Ryanair, Michael O'Leary, við kynningu á ársuppgjöri félagsins í morgun.

Líkt og mbl greindi frá í morgun jókst hagnaður félagsins um 66 prósent milli ára og farþegum fjölgaði um milljónir. Hagnaðurinn nam 866,7 milljónum evra.

O'Leary sagði að sjónum yrði áfram beint að því að fylla vélarnar frekar en að lækka verð. Business Insider bendir á að samkeppnisaðilar gætu þannig mögulega séð sér leik á borði og lækkað fargjöldin til þess að ná farþegum frá Ryanair. Neytendur gætu því grætt að lokum. 

Við kynningu á uppgjörinu sagði O'Leary að ekki væri hægt að búast við jafn góðri afkomu á næsta ári sökum yfirvofandi verðstríðs, þrátt fyrir að fyrirtækið njóti góðs af lægra olíuverði.

Ryanair flýgur ekki til Íslands en í samtali Túrista við talsmann flugfélagsins í lok árs 2013 kom fram að lág flugvallagjöld væru forsenda fyrir nýjum áfangastöðum. Hann sagði þó að félagið hefði kannað flug til Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK