Einn vildi hækka vexti

Einn nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands greiddi á seinasta fundi nefndarinnar atkvæði gegn tillögu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra um að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum.

Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndarinnar sem var birt á vef Seðlabankans í dag.

Kaus nefndarmaðurinn að vextir yrðu hækkaðir strax um 0,5 prósentur. Taldi hann, óháð niðurstöðu kjarasamninga, að aðstæður í þjóðarbúskapnum kölluðu nú þegar á hert taumhald peningastefnunnar. Verðbólguvæntingar hefðu hækkað nokkuð og efnahagsumsvif virtust vaxa hratt.

Horfur væru á ríflega 6% vexti þjóðarútgjalda og yfir 4% hagvexti á sama tíma og atvinna ykist hratt. Þessu til viðbótar væru útlínur komandi kjarasamninga þegar orðnar það skýrar að ljóst væri að niðurstaða þeirra yrði langt umfram það sem samræmdist verðbólgumarkmiði bankans. 

Því væri nauðsynlegt að stíga strax fyrsta skrefið í átt að harðara taumhaldi og að frekari hækkunar væri síðan þörf á næstu fundum nefndarinnar.

Fjórir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra. Að mati þeirra skipti ekki meginmáli hvort vextir yrðu hækkaðir strax eða í júní þegar horfur varðandi niðurstöður kjarasamninga hefðu skýrst, enda myndi yfirlýsing nefndarinnar senda skýr skilaboð um væntanlega 8 vaxtahækkun og áhrifa þeirra myndi gæta strax á skuldabréfamarkaði. Ekki væri útilokað að skilaboð nefndarinnar gætu haft áhrif á niðurstöðu kjarasamninga þannig að launahækkanir yrðu eitthvað minni en nú virtist útlit fyrir. Með skýrum skilaboðum í yfirlýsingu nefndarinnar yrðu markaðsaðilar einnig betur búnir undir hækkun vaxta. 

Eftirfarandi nefndarmenn sátu fundinn: Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og formaður nefndarinnar, Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur, Gylfi Zoëga, prófessor og utanaðkomandi nefndarmaður, og Katrín Ólafsdóttir, lektor og utanaðkomandi nefndarmaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK