Landsbankinn verði samfélagsbanki

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Landsbankinn ætti að vera rekinn sem samfélagsbanki í eigu ríkisins sem skilar aðeins lágmarksarðsemi og er leiðandi í því að halda vaxtamun og bankakostnaði niðri. Þetta segir Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, í samtali við mbl.is.

Frosti sagði á Facebook-síðu sinni í gær að það samrýmdist ekki markmiðum um efnahagslegan stöðugleika að selja Íslandsbanka og Arion banka til erlendra aðila og að með því gætu hundruð milljarðar sogast úr hagkerfinu á næsta áratug.

Erlendir eigendur leiða ekki til lægri kostnaðar

Frosti segir í samtali við mbl.is að tryggja þurfi betur samkeppni á bankamarkaðinum og að Landsbankinn ætti að vera leiðandi í því máli. Segir hann að erlendir aðilar séu ekki til þess fallnir að lækka kostnað til viðskiptavina með aukinni samkeppni, enda sé þeirra helsta markmið að græða og að þeir muni halda uppi sem hæstum kostnaði hér meðan þeir geti. Þeir þurfi aftur á móti að fylgja Landsbankanum haldi hann gjöldum og vaxtamun lágum og slíkt gæti skilað sér í tugum milljarða í sparnaði á fjármagnskostnaði hér á landi ár hvert.

Segir Frosti að erlendir aðilar séu ólíklegri til að koma að svona lækkun kostnaðar hér á landi en innlendir aðilar og þar spili samfélagsleg ábyrgð inn í. Segir hann erlenda fjárfesta ekki líta á sig sem Íslendinga og sjái ekki fyrir sér að búa eða byggja upp Ísland til framtíðar. Því spili t.d. samfélagsleg ábyrgð manna inn í þetta reiknisdæmi, en Frosti segir að einstaklingar sem ætli hér að byggja sína framtíð séu líklegri til bjóða hagstæðari kjör, enda sé mikil nánd í samfélaginu og fólk vill geta gengið um og horft framan í annað fólk á götunni.

Ekki hugmyndir sem finnast í skólabókum

Bendir Frosti á fyrirmyndir í Þýskalandi í bankastofnunum sem séu starfandi á minni svæðum og horfi á það sem sitt helsta markmið að koma raunhagkerfinu áfram, ekki eins og íslensku bankarnir töpuðu sér í bóluhagkerfi fyrir hrun.

Frosti viðurkennir að þetta séu ekki algengar hugmyndir og að þær muni ekki finnast í skólabókum. Hann segir að hér ríki aftur á móti fákeppni og markaðsbrestir á bankamarkaði. Hann tekur einnig fram að verði Landsbankinn gerður að samfélagsbanka sem rekinn sé fyrir lága arðsemi, þá dragi það úr áhættunni við að selja hina bankana erlendum aðilum, en að hann telji engu að síður réttast að bankarnir séu áfram í íslenskri eigu.

Arðsemiskrafan í dag allt of há

Aðspurður um hvaða arðsemiskröfu hann telji eðlilegt að horfa til segir hann að í núverandi ástandi þar sem eiginfjárstaða bankanna sé yfir 25% sé allt of mikið að fara fram á rúmlega 10% arðsemi. Nærtækara væri að horfa á um og undir 7%. Með breyttri eigendastefnu eigi svo að gera Landsbankann leiðandi í að draga einnig úr innri kostnaði, en Frosti bendir á að enn sé talað um að bankakerfið hér á landi sé of stórt. Þannig geti Landsbankinn gengið fremstur við að draga úr yfirbyggingu og þar sé stærsta atriðið að fara ekki í byggingu á dýrum höfuðstöðvum þegar hægt sé að velja ódýrari kost. Aðspurður hvort það sé ekki almennt líklegra að einkaaðilar fari þessa leið aukins hagræðis frekar en ríkisbanki, segir Frosti að það sé almennt það sem gerist. Hér á landi hafi það aftur á móti ekki verið niðurstaðan með bankana.

Almennt hlynntur erlendri fjárfestingu

Frosti tekur fram að hann sé almennt ekki á móti erlendri fjárfestingu. Þannig geti oft verið mjög gott að fá erlent fjármagn t.d. við iðnaðaruppbyggingu og aðra fjárfestingu í atvinnulífinu. Þar sé aftur á móti um gjaldeyrisskapandi fjárfestingar að ræða sem skili sér í auknum gjaldeyri til þjóðarinnar. Segir Frosti að það eigi ekki við um bankana.

Aðspurður hvort hann telji líklegt að þessar skoðanir hans hljóti hljómgrunn innan Framsóknarflokksins segir Frosti að á síðasta flokksþingi Framsóknarmanna hafi verið samþykkt að Landsbankinn ætti að vera samfélagsbank. Hann hafi því mikinn stuðning við þetta innan flokksins.

Frosti leggur til að Landsbankinn verði samfélagsbanki.
Frosti leggur til að Landsbankinn verði samfélagsbanki. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK