Þurfa neytendur sálfræðing?

Frá útsölum í Kringlunni í dag. Þær hófust í morgun …
Frá útsölum í Kringlunni í dag. Þær hófust í morgun og standa fram yfir verslunarmannahelgi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kringlukast, kauphlaup, bláa bomban, svartur föstudagur, vor-, sumar-, haust- og vetrarútsölur, vsk-lausir dagar. Þetta eru nokkrir af þeim fjölmörgu útsöluviðburðum sem skjóta reglulega upp kollinum. 

Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, telur fjölgun tilboðsdaga vera tilraun verslunareigenda til þess að halda verslun á Íslandi. „Þetta sýnir líka bara að verslunin er mjög frjó og er að líta til annarra landa og finna tilefni til þess að örva verslunina hér á landi,“ segir Margrét.

Fullt í Kringlunni í dag

Sumarútsölur hófust víðast hvar í dag, þann 1. júlí, og segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, að mikil umferð hafi verið í húsinu allt frá því að Kringlan var opnuð í morgun. Hann segir að langflestir verslunareigendur hafi ákveðið að hefja útsölurnar í dag þrátt fyrir að þeim sé það ekki skylt. Sigurjón reiknar með að traffíkin verði enn meiri síðdegis þar sem opið er til níu í kvöld.

Útsölurnar standa fram yfir verslunarmannahelgi en þá verður botninn sleginn í þær með götumarkaði. 

Kaupa það sem er á tilboði

Þar sem tilhneiging verslunarinnar hefur verið að fjölga útsöludögum má spyrja hvort ekki væri hægt að lækka álagningu árið um kring og fækka tilboðum. „Þá þyrfti nú einnig að senda alla neytendur til sálfræðings,“ segir Margrét glettin. „Þetta er eitt af því sem virkar á neytendur í öllum heiminum,“ segir hún. 

„Þetta er að miklu leyti sálfræðilegt. Margir kaupa eitthvað bara vegna þess að það er á tilboði, en eru ekkert endilega að spá í verðið,“ segir hún og bætir við að þess vegna þurfi að fylgjast með að verðlækkun sé raunveruleg. „Ég held að það sé almennt viðurkennt í markaðsfræðinni að þetta sé frábær leið til þess að fá neytandann til þess að eyða meiri peningum,“ segir Margrét.

Samkeppnishæf álagning

Hún bendir á kannanir Eurostat sem hafa sýnt að álagning á Íslandi er nokkuð samkeppnishæf og síður en svo hærri en í mörgum öðrum löndum. „Það er hins vegar frjáls álagning og auðvitað eru sumar verslanir með hærri álagningu og aðrar með lægri. Það verður alltaf, því samkeppni virkar þannig,“ segir hún.

Margrét ítrekar hins vegar margkveðin orð samtakanna um að opinber gjöld í fataverslun séu of há á Íslandi og skapi þann mismun sem íslenskir neytendur upplifa. Líkt og fram hefur komið stefnir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, að því að af­nema toll­á föt og leggja fram frumvarp þess efnis á næsta haustþingi.

Frétt mbl.is: Hvað sparast við afnám fatatolla?

Margrét segir það vera mjög jákvætt og til þess fallið að lækka verð en hins vegar þurfi einnig að færa fatnað í neðra þrep virðisaukaskatts til þess að verslunin verði samkeppnishæf við þau lönd sem við berum okkur saman við. 

Búist er við fjölmenni í Kringlunni síðdegis í dag.
Búist er við fjölmenni í Kringlunni síðdegis í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK