Gefa náttúrunni til baka

Guðbjörg Gissurardóttir með fimm ára afmælisritið.
Guðbjörg Gissurardóttir með fimm ára afmælisritið. Dagný Gísladóttir.

Í boði náttúrunnar er fyrirtæki sem vinnur að heilbrigðum og grænum lífsstíl. Fyrirtækið er með fjölbreyttan rekstur og gefur meðal annars út tímarit og heldur úti vefsíðu. Í ár á Í boði náttúrunnar fimm ára afmæli og í tilefni þess verða gróðursett tré í Heiðmörk fyrir hvert tölublað. Þetta er leið fyrirtækisins til að gefa náttúrunni tilbaka. 

Ævintýrið hófst þegar Guðbjörg Gissurardóttir byrjaði með útvarpsþáttinn Í boði náttúrunnar ásamt eiginmanni sínum. Þátturinn fjallaði um matjurtarækt og sjálfbært líf á Íslandi. Í kjölfarið varð svo til tímaritið Í boði náttúrunnar sem kemur út þrisvar á ári. Markmið tímaritsins er að veita innblástur og fróðleik sem tengir fólk betur við náttúruna á fjölbreyttan hátt, fá það til að hugsa um hvernig það nýtir hana og stuðla að andlegu og líkamlegu heilbrigði.

Friðsemd í febrúar

Þá hefur Í boði náttúrunnar staðið fyrir hugleiðsluhátíðinni Friðsemd í febrúar í tvö ár. Á hátíðinni eru hugað að andlegu heilsunni og ætlað að kynna hugleiðslu fyrir almenningi. Á síðasta ári voru rúmlega áttatíu fríir hugleiðsluviðburðir í borginni. „Þetta er alveg rosalega gaman og gaman að sjá hvað Íslendingar eru duglegir í þessu,” segir Guðbjörg Gissurardóttir stofnandi Í boði náttúrunnar.

Í fyrsta blaðinu fæddist svo nýtt verkefni sem kallast Handpicked Iceland en það er matarkort þar sem kortlögð eru góð matarstopp um landið. „Þetta varð afar vinsælt og virkar vel fyrir útlendinga sem eru sífellt að leita sér að góðum matsölustöðum um landið.” Í sumar verður gefin út handbókin Handpicked Reykjavík þar sem að Guðbjörg hefur með hjálp frá vinum valið góða matsölustaði í borginni.  

Vefsíðan Í boði náttúrunnar var svo sett á laggirnar fyrir um ári en á henni er fjallað um grænan og heilbrigðan lífsstíl. Á vefnum er einnig haldið utan um hina ýmsu viðburði sem tengjast heilsu.

Fyrirtækið býður einnig upp á græna fríðindakortið en það er kort þar sem verið er að kynna græn fyrirtæki og hjálpa fólki að geta keypt þær vörur á hagstæðara verði.

Gróðursetja tré í Heiðmörk

Í ár var ákveðið að ganga skrefinu lengra þar sem að fyrirtækið er fimm ára, fara út í náttúruna og gefa tilbaka. „Við erum svo oft að hugsa um að lágmarka skaðann, prenta í umhverfisvænni prentsmiðju en nú ætlum við að gefa náttúrunni tilbaka og rækta skóg.” Hver áskrifandi fær gefins plöntu sem honum er boðið að gróðursetja í Heiðmörk. Guðbjörg er nú orðin landnemi í Heiðmörk, „við erum með fallegt pláss sem við merkjum okkur og munum svo byrja að rækta í haust.” Áskrifendur eru ekki eingöngu að kaupa sér blað heldur einnig að stuðla að skógrækt. Guðbjörg vonast svo til að geta nýtt svæðið fyrir útinámskeið í framtíðinni. „Við erum alltaf að reyna að tengja okkur og lesendur okkar betur við náttúruna.”

Í boði náttúrunnar er útgáfa fyrir fólk sem hefur áhuga á að fá sem mest út úr lífinu. „Við erum trú okkur sjálfum og fræðum fólk um það sem okkur finnst skipta máli, náttúruna og heilbrigði,” segir Guðbjörg að lokum.



Gefa náttúrunni tilbaka.
Gefa náttúrunni tilbaka.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK