Matarkistan Skagafjörður verðlaunuð

Sauðárkrókur við Skagafjörð.
Sauðárkrókur við Skagafjörð. mbl.is/Sigurður Bogi

Skagafjörður hefur verið útnefndur Gæðaáfangastaður Íslands 2015. Verðlaunin er veitt af Ferðamálastofu í tengslum við EDEN-verkefnið sem stendur fyrir „European Destination of Excellence“.

Samkvæmt tilkynningu á vef Ferðamálastofu er markmið verkefnisins er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum Evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta, áfangastaði vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni.

Verðlaunin eru veitt annað hvert ár og með mismunandi þema í hvert skipti. Þema ársins 2015 var matartengd ferðaþjónusta og var það verkefnið Matarkistan Skagafjörður sem þótti bera af.

Í niðurstöðu valnefndar segir:

„Matarkistan Skagafjörður á sér langa sögu og fyrsta samstarfsverkefni sinnar tegundar á sviði matartengdrar ferðaþjónustu hér á landi. Má því segja að verkefnið hafi rutt veginn og undirbúið jarðveginn fyrir önnur slík verkefni víða um land og sé því sannkallað frumkvöðlaverkefni. Afurðir verkefnisins hafa verið margar og fjölbreyttar í gegnum tíðina, en þar má m.a. nefna árlega Hrossaveislu, fyrirlestra og námsefni á vegum Hólaskóla og matreiðslubókina Eldað undir bláhimni. Nefndin telur verkefnið vel að heiðrinum komið og vonast til að tilnefningin verði til að efla enn frekar matartengda ferðaþjónustu í Skagafirði, sem og á landinu öllu.“

Annað sætið hlaut Skaftárhreppur fyrir verkefnið Hvað er í matinn?

Tilnefningu frá EDEN verkefninu fylgir ekki stuðningur í formi fjármagns en Ferðamálastofa hefur ákveðið að veita 250 þúsund króna hvatningarstyrk til Matarkistunnar Skagafjarðar til undirbúnings á matartengdum ferðapakka um Skagafjörð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK