Fjölga auglýsingum í Quizup

Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Plain Vanilla.
Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Plain Vanilla.

Plain Vanilla ætlar að opna skrifstofur í New York í haust. Helsta verkefni skrifstofunnar verður að landa samningum þar sem til stendur að fjölga auglýsingum í Quizup og einblína á auglýsingamarkaðinn fyrir farsíma.

Viðskiptablaðið greindi frá áformum um nýju skrifstofurnar í morgun en í samtali við mbl segir Þorsteinn Bald­ur Friðriks­son, stofn­andi og fram­kvæmda­stjóri tölvu­leikja­fram­leiðand­ans, að verið sé að leita að húsnæði á Manhattan eða í Brooklyn. Ekki liggur fyrir hversu stór skrifstofan verður en á Íslandi starfa tæplega níutíu manns. 

Höfuðstöðvar á Íslandi

Einhverjir starfsmenn munu flytja út og einhverjir nýir verða ráðnir inn í New York. Þorsteinn segist sjálfur ætla að vera á Íslandi en býst hins vegar við að flakka töluvert á milli, líkt og hann hefur gert til þessa. Þá verður öll þróun áfram í höfuðstöðvunum á Íslandi en skrifstofan í New York mun líkt og áður segir einblína á auglýsingamarkaðinn.

Líkt og Þorsteinn hefur áður sagt er Asíumarkaðurinn helsti tekjustofn fyrirtækisins þar sem áhersla er lögð á að selja alls kon­ar auka­hluti í leikn­um. Það hefur ekki verið gert í leiknum í Evrópu og Bandaríkjunum.

Skrifstofan þáttur í tekjuvexti

„Það er alveg rétt að við höfum ekki verið með mikla áherslu á tekjumyndun í appinu utan Asíu, en við höfum hins vegar verið að vinna okkur áfram með nýju útgáfuna. Það verða gerðar breytingar á því og búast má við fleiri auglýsingum á næstu misserum,“ segir Þorsteinn. „Það má segja að skrifstofan í New York sé þáttur í okkar tekjuvexti þar sem meginmarkmið hennar verður samstarf og tekjumyndun með samstarfsaðilum,“ segir hann.

Þorsteinn segir gott að hafa nálægð við Bandaríkin þar sem um 50 prósent notenda eru Bandaríkjamenn. „Þetta eru oft stærri samningar og taka einhvern tíma. Þá er mjög gott að vera nálægt markaðnum,“ segir hann.

Háleit markmið á farsímamarkaðnum

Aðspurður um frekari vöxt segir hann Frakkland vera á hraðri uppleið og skrifstofur þar gætu því mögulega verið framtíðarskref. „Í þessum bransa eru Bandaríkin miðpunkturinn, langstærsti auglýsingamarkaðurinn og þau eru komin lengst hvað varðar farsímaauglýsingar,“ segir hann.

„Facebook hefur verið að velta miklu á farsímaauglýsingum en það er mikill vöxtur eftir og pláss fyrir nýja leikmenn. Við ætlum okkur að vera mjög sterkir og einblína á þennan markað,“ segir Þorsteinn.

Skrifstofurnar verða á Manhattan eða í Brooklyn í New York.
Skrifstofurnar verða á Manhattan eða í Brooklyn í New York. AFP
Lögð verður meiri áhersla á auglýsingar í Quizup.
Lögð verður meiri áhersla á auglýsingar í Quizup.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK