Allir starfsmenn tína hundasúrur

Daan Dorr og Arnar Páll Sigrúnarson túna jurtir í Eyjum.
Daan Dorr og Arnar Páll Sigrúnarson túna jurtir í Eyjum. Mynd af Facebook síðu Slippsins

„Ef við sjáum hundasúrur í görðum bönkum við upp á og spyrjum hvort við megum taka þær,“ segir veitingamaðurinn og einn eigenda Slippsins í Eyjum, Gísli Matthías Auðunsson. Hann lokaði veitingastaðnum í hádeginu í vikunni til þess að leita að hundasúrum og öðrum jurtum og birgja sig upp fyrir þjóðhátíð.

„Fólki finnst þetta bara skemmtilegt. Þetta er svo lítið bæjarfélag og allir eru tilbúnir að hjálpa,“ segir Gísli aðspurður hvernig fólk taki í þessa heimsókn.

Matreiðslan á Slippnum er örlítið óhefðbundin þar sem veitingastaðurinn nýtir aðallega hráefni af eyjunni. Kokkar og þjónar hafa því gengið um í leit að blóðbergi, hundasúrum, kerfli, rabarbara og öðrum jurtum.

Vildu ólmir hjálpa

Gísli auglýsti eftir rabarbara og ýmsum jurtum á Facebook og viðbrögðin létu ekki á sér standa þar sem bæjarbúar vildu ólmir rétta hjálparhönd. „Um leið og orðið var komið á götuna var lítið mál að fá hráefnið,“ segir hann.

Staðurinn var opnaður árið 2012 og þetta er því fjórða sumarið í rekstri. Gísli býst við margmenni um helgina og segist hafa undirbúið sig vel. „Á síðustu þjóðhátíð var að minnsta kosti troðfullt út úr dyrum alla hátíðina,“ segir hann.

Troðfullt í bænum

Gísli segir að gestir séu þegar farnir að tínast í bæinn. „Maður finnur að mannlífið er að aukast. Síðan er það svolítið fyndið að hér sést varla útlendingur í þessari viku þrátt fyrir að allt sé yfirfullt með öllum samgöngum,“ segir hann og vísar til þess að ferðamenn séu annars tíðir gestir í Vestmannaeyjum. 

„Þeir hafa verið ótrúlega hrifnir af þessu,“ segir hann aðspurður um skoðanir ferðamanna á íslensku jurtunum í matar- og drykkjargerð. „Markmiðið var að upphefja íslenska matargerð og sýna hversu mikið væri hægt að gera við villta hráefnið og allt það sem vex hérna.“

Auk þess að reka Slippinn í Vestmannaeyjum með fjölskyldu sinni á Gísli einnig ásamt öðrum veitingastaðinn Mat og drykk á Grandagarði. Þar er sama hugmyndafræði ríkjandi þar sem íslenskri matarmenningu er gert hátt undir höfði.

Slipurrin nýtir bara hráefni frá Eyjum.
Slipurrin nýtir bara hráefni frá Eyjum. Mynd af Facebook síðu Slippsins
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK