Heimilisbíllinn verður bílaleigubíll

Sölvi Melax, stofnandi VikingCar.
Sölvi Melax, stofnandi VikingCar. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta er í fyrsta sinn sem ný lög hér á landi heimila þetta nútímadeilihagkerfi” segir Sölvi Melax, einn stofnenda jafningjaleigunnar VikingCars. Félagið, sem hóf starfsemi fyrir rúmu ári síðan, þjónustar þá sem vilja leigja einkabílinn sinn beint til annarra.

Alþingi samþykkti á lokadögum þingsins ný lög sem er ætlað að skapa ákveðna umgjörð utan um þá starfsemi þegar almenningur leigir einkabíla sína fyrir milligöngu miðlunar, sérstakra „einkaleiga“, eins og það er kallað í lögunum. Nú er þess ekki lengur krafist að leyfishafi miðlunarinnar sé eigandi þess ökutækis sem leigt er út, eins og á við um hefðbundna bílaleigu.

Hverjum og einum er nú heimilt að leigja út tvo bíla. Sá sem annast milligöngu miðlunarinnar þarf að hafa tilskilin starfsleyfi sem Samgöngustofa gefur út, en nýju lögin setja þeim ákveðnar starfsreglur.

Skilyrðin sem sett eru í lögunum eru að ökutæki sem leigð eru út hafi verið skráð í réttan notkunarflokk hjá Samgöngustofu, hafi lögbundna aðalskoðun, að í gildi sé ábyrgðartrygging og að ökutækin hljóti viðhald og eftirlit og séu í ásigkomulagi sem tekur mið af árstíma og færð, svo eitthvað sé nefnt.

Skráningum fjölgað verulega

„Við fögnum þessu frumvarpi. Þetta er fyrsta fordæmið fyrir því að deilihagkerfinu sé tekið fagnandi af stjórnvöldum og að heimili í landinu geti leigt út eignir sínar og þar að leiðandi nýtt auðlindirnar betur,“ segir Sölvi.

Hann nefnir að bílaskráningum hjá VikingCars hafi fjölgað verulega í sumar, meira en tvöfaldast, sér í lagi eftir að lögin, sem taka gildi 1. ágúst, voru samþykkt.

Kúnnahópurinn er mjög fjölbreyttur, að sögn Sölva. „Það er svolítið af ungu fólki sem er að reyna að skapa sér viðbótartekjur, nýta eignir sínar. Þá þykir mörgu eldra fólki hugmyndin góð. Við erum að nýta bílaflotann, sem er einn sá elsti innan OECD-ríkjanna, mun betur. Við erum einnig með dýrustu bílaleigubíla í heimi. Þetta er tækifæri fyrir fólk til að leigja út bílinn sinn svona dýrt. Undir venjulegum kringumstæðum áttu ekki að fá svona mikið fyrir að leigja út bíl,” segir hann.

Tilvalið að leigja bílinn út á sumrin

Sölvi nefnir auk þess að sá sem leigir bíl sinn út hluta af ári geti betur mætt kostnaði við rekstur hans. Tilvalið sé að leigja bíla út á sumrin þegar eftirspurnin er hvað mest. „Fólk ferðast gjarnan á hjóli á sumri eða fer í frí erlendis og þá er tilvalið að leigja bílinn út á meðan,“ segir Sölvi. Skortur sé á bílum þrjá mánuði á ári.

Það sé einnig umhverfisvænt að nýta betur sérhvern bíl í stað þess að fjölga þeim til að mæta toppum í eftirspurn.

Flestir kannast við húsnæðismiðlunina Airbnb, sem hefur farið sigurför um heiminn, en Sölvi bendir á hana sem ákveðna hliðstæðu við VikingCars: Fólk skráir bílinn sinn, setur inn myndir af honum, ræður sjálft leiguverðinu og leigutímanum. Þóknun VikingCars nemur 30% af leiguverðinu en inni í því gjaldi er viðbótartrygging og vegaaðstoð sem lágmarkar áhættu eiganda ökutækisins.

Nýting einkabílsins „arfaslök“

„Ég bjó erlendis í sjö ár og þegar ég flutti heim keypti ég mér bíl. Ég veitti því þá athygli hvað fólk er að borga mikið fyrir bílaleigubíla. Ég deildi kaupverðinu á bílnum mínum í leiguverð og fékk út tölur sem gengu ekki upp. Út frá því fór ég að hugsa hvernig hægt væri að nýta bílaflotann í landinu betur. Nýting einkabílsins er arfaslök, um 4%,“ segir hann. Hann bendir þó á að hann sé ekki að finna upp hjólið. Samskonar lausnir séu til víða erlendis.

En hvaða tekjur er hægt að hafa af einkabílnum?

Sölvi segir að þær geti verið ansi drjúgar. Hann bendir á að bílar séu að meðallagi leigðir út í tæplega viku og er meðalleigan á hverjum degi um 13 þúsund krónur. Dæmigert sé að sanngjarnt verðlagðir bílar séu í útleigu í um tuttugu daga á mánuði yfir sumartímann.

Það hefur færst í vöxt að fólk leigi út bíla …
Það hefur færst í vöxt að fólk leigi út bíla sína til erlendra ferðamanna. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK