Betri afkoma ÍLS en gert var ráð fyrir

Sverrir Vilhelmsson

Árshlutareikningur Íbúðalánasjóðs fyrir fyrri hluta ársins 2015 var staðfestur af stjórn sjóðsins í dag. Samstæðureikningur Íbúðalánasjóðs hefur að geyma reikninga Íbúðalánasjóðs og dótturfélags hans, Leigufélagsins Kletts ehf. Afkoman er betri en áætlanir gerðu ráð fyrir en rekstrarniðurstaða tímabilsins var neikvæð sem nemur 808 milljónum króna samanborið við 1.308 milljóna króna tap fyrir sama tímabil árið á undan.

Eiginfjárhlutfall sjóðsins hefur hækkað í 4,8% en var 4,5% í upphafi árs. Hlutfallið er reiknað með sama hætti og eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja. Langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5,0%. Eigið fé Íbúðalánasjóðs í lok tímabilsins er 17.279 milljónir króna en var 18.087 milljónir króna í árslok 2014.

Vaxtatekjur nema samtals 30.074 milljónum króna samanborið við vaxtatekjur að fjárhæð  27.481 milljónum króna fyrir sama tímabil árið 2014.

Rekstrarkostnaður var 958 milljónir króna og lækkaði um 15% eða 170 milljónir króna samanborið við sama tímabil árið 2014. Stöðugildum fækkaði um 9% á fyrri hluta ársins 2015 og voru 100 samanborið við 109 á sama tímabili árið 2014, þar af voru starfsmenn Leigufélagsins Kletts ehf. fimm. Rekstrarkostnaður sem hlutfall heildareigna nam 0,23% á ársgrunni samanborið við 0,27% sama tímabil árið á undan.

Virðisrýrnun útlána nam 19.590 milljónum króna í lok júní 2015 og lækkaði um 1.538 milljónir króna frá áramótum. Lækkun virðisrýrnunar tengist umtalsverðri minnkun vanskila heimila og sterkari tryggingastöðu lánasafnsins vegna hækkana á fasteignamarkaði. Í lok tímabilsins voru 95,7% heimila sem eru í viðskiptum við Íbúðalánasjóð með lán sín í skilum.

Þann 30. júní 2015 voru útlán sjóðsins 691 milljarður króna og höfðu útlán lækkað um 36 milljarða króna frá áramótum. Þar af eru um 28 milljarðar vegna úrræða stjórnvalda. Lántaka sjóðsins nam 801 milljarði króna og lækkaði um 5,5 milljarða á tímabilinu. Heildareignir sjóðsins námu 818 milljörðum króna.

Vanskil heimila hafa minnkað verulega á milli tímabila. Um 4,3% heimila voru með þrjá eða fleiri gjalddaga í vanskilum þann 30. júní 2015 samanborið við 5,5% heimila í lok árs 2014.

Um 94% af bókfærðu virði lánasafns Íbúðalánasjóðs liggur á veðbili innan við 90% af fasteignamati undirliggjandi veðandlags um mitt ár 2015. Fasteignaverð hefur hækkað umfram verðlag á tímabilinu og vanskil minnkað umtalsvert og því hefur tryggingarstaða lánasafnsins styrkst. Yfirgnæfandi hluti lána sjóðsins er á fyrsta veðrétti auk þess sem fasteignamat er að öllu jöfnu varkár verðmatsaðferð fyrir markaðsvirði eignar.

Á tímabilinu afgreiddi sjóðurinn höfuðstólslækkun fasteignalána til handa 24.727 heimilum alls að kröfuvirði 34.178 milljónir króna. Útlán sjóðsins drógust umtalsvert saman og laust fé jókst samsvarandi. Stjórnvöld hyggjast ljúka greiðslu kaupverðs leiðréttingarhluta lánasafnsins í janúar 2016 skv. samningi þar um.

Um 10.612 heimili hafa nýtt sér þann möguleika að greiða lán sín hjá sjóðnum hraðar upp með ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á fasteignalán sín. Umframgreiðslur vegna ráðstöfunar séreignarsparnaðar viðskiptavina hafa numið 2.887 milljónum króna fram til 30. júní 2015.

Á tímabilinu seldi sjóðurinn 548 íbúðir og leysti til sín 181 íbúð til fullnustu. Þann 30. júní voru 1.524 fullnustueignir í eigu sjóðsins og hafði þeim fækkað um 367 eignir frá áramótum. Um 46% eigna til sölu eru í útleigu. Bókfært virði fullnustueigna sjóðsins tekur mið af kostnaðar-verði eða áætluðu gangvirði hvoru sem lægra reynist. Bókfært virði eigna móðurfélagsins þann 30. júní er 22 milljarðar króna, á sama tíma og fasteignamat sömu eigna er 26,6 milljarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK