„Við viljum bara leysa þetta vandamál“

Kjartan Þórisson, framkvæmdarstjóri Study Cake, kynnti fyrirtækið á Fjárfestadegi Startup …
Kjartan Þórisson, framkvæmdarstjóri Study Cake, kynnti fyrirtækið á Fjárfestadegi Startup Reykjavík í morgun. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Það er vel vitað að læsi grunnskólanemenda í dag er ábótavant. Þrátt fyrir mikilvægi lesturs er eins og krakkar í dag hafi ekki áhuga á lestri og velja frekar snjallsímann eða spjaldtölvuna framyfir góða bók. Fyrirtækið Study Cake leitar eftir því að breyta þessu og kynnti framkvæmdarstjóri fyrirtækisins, Kjartan Þórisson starfsemina og framtíðarsýn Study Cake á Fjárfestadegi Startup Reykjavík sem fram fór í höfuðstöðvum Arion banka í dag.

Study Cake er eitt þeirra tíu teyma sem valin voru til þess að taka þátt í viðskipta­hraðlin­um Startup Reykja­vík sem fór fram á vegum Arion banka og Klak Innovit í sumar og í dag fengu teymin tækifæri til þess að kynna hugmyndir sínar fyrir mögulegum fjárfestum.

Foreldrar verðlauna börn fyrir lestur

Í kynningu Study Cake lýsti Kjartan því hvernig hægt er að efla börn dagsins í dag til þess að lesa. Að mati Kjartans er eitt vandamálið það að það er ekki lengur spennandi að lesa. „Í bókum eru engin „hashtögg“ eða „retweet“ en það er þar sem við komum inn,“ lýsti hann.

Study Cake er smáforrit sem býður foreldrum upp á að verðlauna börn fyrir lestur. Börnin fá „heilasellur“ fyrir að leysa ákveðin mörg verkefni sem snúast um að lesa bækur og svara spurningum úr þeim og gefa álit á innihaldinu. Eftir að barnið safnar ákveðið mörgum heilasellum geta foreldrar verðlaunað börnin sín með einhverju ákveðnu og í leiðinni fá þeir betri yfirsýn yfir lesskilning barnanna sinna.

Gætu ekki verið heppnari með tímasetningu

Kjartan benti jafnframt á að læsi barna væri mikið í umræðunni þessa dagana, sérstaklega í ljósi Byrendalæsis og þjóðaráttaks um lestur. „Við gætum ekki verið heppnari með tímasetningu,“ sagði hann. Hann greindi jafnframt frá því að meðlimir Study Cake hafi í  síðustu viku hitt fulltrúa Námsgagnastofnunar sem voru spenntir fyrir því að setja íslenskar námsbækur inn í Study Cake. „Ef þetta virkar hér er engin ástæða af hverju þetta ætti ekki að virka annarsstaðar,“ sagði Kjartan og bætti við að markmið Study Cake væri að komast á erlendan markað á næsta ári.  

Næstu sex mánuðina stendur til að semja spurningapakka fyrir 300 vinsælustu barnabækurnar á Íslandi sem notaðir verða í leiknum. Einnig er markmið fyrirtækisins að semja við þrjár stærstu bókaútgáfur landsins og Námsgagnastofnun.

Stofnendur Study Cake eru  þrír, Kjartan, Hörður Guðmundsson fjármálastjóri og  Kristján Ingi Geirsson, tæknistjóri.

„Þetta er búið að vera dásamlegt“

„Þessi síðustu þrír mánuðir eru búnir að vera fáránlegir í rauninni. Þetta hefur farið langt fram úr okkar björtustu væntingum,“ segir Hörður í samtali við mbl.is þegar hann er beðinn um að lýsa tímanum með Startup Reykjavík. „Við komum inn í þetta verkefni og hétum Flori og ætluðum okkur að breyta heimavinnu. En síðan breyttum við þessu yfir í Study Cake og höfðum verið að reyna að þróa hugbúnað til að hjálpa fyrirtækjum. En svo fundum við þennan áherslupunkt, sem er lesturinn, og fórum þar af leiðandi yfir í hvatakerfi fyrir foreldra.“

Kjartan bætir við að hugmyndin hafi þróast í ýmsar áttir síðan að þeir voru valdir til þess að taka þátt í Startup Reykjavík. „Það er líka tilgangurinn með þessum hraðli. Koma inn og hitta fólk sem veit miklu meira en þú og þú tekur það inn á þig sem þau hafa að segja. Maður má aldrei vera hræddur við að fara útaf hinum hefðbundna vegi.“

„Við erum líka alveg ótrúlega  þakklátir fyrir að hafa aðgang að öllu því frábæra fólki sem hefur hjálpað okkur svo mikið,“ segir Hörður. „Að þessir hlutir geti gerst á tíu vikum er alveg magnað. Við erum búnir að kynnast einstaklingum í hinum verkefnum og mynda bæði tengslanet og bara vinabönd. Þetta er búið að vera dásamlegt.“

Liggur ekkert á að byrja í háskóla

Aðspurðir um langtíma markmið Study Cake er svar framkvæmdarstjórans einfalt. „Við viljum bara leysa þetta vandamál sem minnkandi lestur er. Við vitum að þetta er mikið í deiglunni núna, bæði varðandi Byrjendalæsið og lestraráttakið og við ætlum bara að njóta þeirrar öldu, fara með þeirri hreyfingu og láta gott af okkur leiða,“ segir Kjartan.

Kjartan og Hörður eru nýútskrifaðir úr Verslunarskóla Íslands. Þeim liggur ekkert á að hefja háskólanám, enda nóg að gera við þróun Study Cake. „Við ætlum að taka okkur ár í verðmætasköpun og reyna að láta gott af okkur leiða og leysa raunveruleg vandamál. Þetta er tíminn sem þú átt að vera að gera eitthvað sem getur hjálpað þér í framtíðinni, skólinn fer ekki neitt,“ segir Hörður. „Þetta er tíminn sem við getum tekið áhættu. Ef maður er kominn með heimili og börn er það erfiðara. En ef allt feilar getum við aftur flutt heim til foreldranna, allavega í bili.“

Facebook síða Study Cake

studycake.com

„Við gætum ekki verið heppnari með tímasetningu,“ sagði Kjartan í …
„Við gætum ekki verið heppnari með tímasetningu,“ sagði Kjartan í dag þegar hann kynnti Study Cake. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK