„Þetta yrði ljós í myrkrinu“

Hér gæti nú verið huggulegt að vera.
Hér gæti nú verið huggulegt að vera. Af Facebook síðu fyrirtækisins

Íslendingar búa við myrkur og kulda á veturna og þar af leiðandi er tilhugsunin um grænmetis- og ávaxtaræktun í miðri Reykjavík allan ársins hring hálf undarleg. En ef hugmynd sprotafyrirtækisins Spor í sandinn verður að veruleika gætu Reykvíkingar og gestir höfuðborgarinnar notið sín í gróðurhvelfingum þar sem stunduð verður ýmis ræktun, fiskeldi, og fræðslutengd starfssemi. Framkvæmdarstjóri fyrirtækisins, Hjördís Sigurðardóttir, kynnti hugmyndina á Fjárfestadegi Startup Reykjavík í gær.

Spor í sandinn er eitt þeirra tíu teyma sem valin voru til þess að taka þátt í viðskipta­hraðlin­um Startup Reykja­vík sem fór fram á veg­um Ari­on banka og Klak Innovit í sum­ar og í dag fengu teym­in tæki­færi til þess að kynna hug­mynd­ir sín­ar fyr­ir mögu­leg­um fjár­fest­um.

Myndu auka lífsgæði íbúa

Hjördís kynnti þar hugmyndina um fjórar gróðurhvelfingar sem byggðar yrðu við hliðina á Laugardalslauginni. Að mati Hjördísar er fólk í auknum mæli að missa tenginguna við náttúruna, sérstaklega í borgum. „Við Íslendingar eigum alveg ótrúlegt landslag en þrátt fyrir það finnst mér eins og við séum að missa tengingu við náttúruna,“ sagði Hjördís í gær. „Ég held til dæmis að yngri kynslóðin hafi ekki hugmynd um hvernig kvöldmaturinn kemst á diskinn.“

Hjördís lýsti því hvernig Íslendingar þyrftu að þola mikið myrkur og vetur sem stendur yfir í allt að átta mánuði. Þrátt fyrir að ferðamenn komi til Íslands til þess að upplifa svona aðstæður hér, þætti þeim eflaust notalegt að komast inn í hlýjuna og andrúmsloftið sem gróðurhvelfingarnar myndu bjóða upp á.

Hún lagði áherslu að ferðamenn gætu gert margt skemmtilegt í Reykjavík en að hægt væri að bæta við upplifun þeirra með gróðurhvelfingum. Þar að auki myndu þær auka lífsgæði íbúanna. „Þetta yrði ljós í myrkrinu, samkomustaður sem býður upp á græna paradís allt árið,“ sagði Hjördís. Hún kynnti hvernig hægt væri að rækta grænmeti og ávexti inni í hvelfingunum og selja þær í borginni.

Gætu opnað 2017

Hópurinn sér fyrir sér að hvelfingarnar yrðu byggðar nálægt Laugardalslaug, enda eru laugarnar stór hluti af menningu Reykvíkinga. „Það er þessi hefð í okkar menningu að deila sögum og hugmyndum í heitu pottunum. Þeir eru mikilvægir samkomustaðir í samfélaginu og þar að auki vinsælir ferðamannastaðir.“ Hjördís sagðist í gær sannfærð um að gróðurhvelfingar við slíka staði myndu vera frábært viðskiptatækifæri. „Við getum þróað þetta svæði og skapað andlega hvetjandi stað.“

Hópurinn sér fram á að hægt yrði að opna gróðurhvelfingarnar árið 2017 og á þriðja ári starfseminnar yrðu gestir 150.000 talsins. „Ég segi ykkur það gott fólk, ég mun byggja þessar gróðurhvelfingar og ég býð ykkur velkomin um borð,“ sagði Hjördís að lokum.

Hafa fengið jákvæð viðbrögð og mikla hvatningu

Hjördís segir í samtali við mbl.is að ferlið innan Startup Reykjavík hafi verið ótrúlega skemmtilegt. „Það er búið að vera alveg rosalega mikið að gera en þetta hefur verið alveg ótrúlega gaman. Það er varla hægt að lýsa því hvað við erum búin að vera að gera, það er svo mikið.“

Að sögn Hjördísar hefur teymið hitt og kynnt hugmyndina fyrir mörgum og átt einkafundi með fremsta fólki viðskiptalífsins. Þar að auki hafa þau setið mjög góða fyrirlestra og fengið ráðgjöf.

Hún segir viðbrögðin við hugmyndinni góð. „Fólki finnst þetta aðeins öðruvísi og vekur fólk til umhugsunar. En það er yfirleitt frekar spennt fyrir þessu og við höfum fengið mjög mikla hvatningu.“ Nú leitar hópurinn fjármagns. „Nú þurfum við fjármagn til þess að halda áfram og svo þarf auðvitað að eiga samtali við borgina og þá aðilla sem koma að þessu, íbúasamtök og aðra.“

Facebook síða fyrirtækisins

sporisandinn.is

Hjördís við líkan gróðurhvelfinganna.
Hjördís við líkan gróðurhvelfinganna. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Svona gæti út­sýnið frá tjald­stæðunum í Laug­ar­dal orðið verði hug­mynd­ir …
Svona gæti út­sýnið frá tjald­stæðunum í Laug­ar­dal orðið verði hug­mynd­ir hóps­ins að veru­leika Af Facebook síðu fyrirtækisins
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK