Bíða með farmiða til Frakklands

Jón Daði Böðvarsson, Alfreð Finnbogason og Ari Freyr Skúlason fagna …
Jón Daði Böðvarsson, Alfreð Finnbogason og Ari Freyr Skúlason fagna sigrinum í Amsterdam. mbl.is/Skapti Hallgrimsson

Þrátt fyrir að margir sæmilega bjartsýnir Íslendingar séu farnir að hugsa um Frakklandsferð næsta sumar til þess að fylgjast með landsliðinu í lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu er enn ekki að merkja aukningu á leitum til Frakklands á leitarsíðunni Dohop.

Starfsmenn fyrirtækisins grófust fyrir í gagnagrunninum fyrir mbl.is og segja engar markverðar breytingar hafa átt sér stað í leitarvélinni, hvorki fyrir né eftir úrslitin í Amsterdam í gær.

Eftir leikinn í gær benti norska blaðið Ver­d­ens Gang á að Íslend­ing­ar gætu í dag haf­ist handa við að skoða hót­el­in í Frakklandi næsta sum­ar þar sem blaðamaður VG telur næstum útilokað að liðið missi af EM-sætinu úr þessu.

Breytist þegar tímar og staðir liggja fyrir

Jóhann Þórsson, markaðsstjóri Dohop, segir að fólk sé líklega ekki að leita svo langt fram í tímann en lokakeppnin fer fram frá 10. júní til 10. júlí næsta sumar. Það gæti hins vegar snögglega breyst, ef Ísland verður öruggt inn á EM, og vitað verður hvar og hvenær leikir liðsins fara fram.

Mótið fer fram á tíu leikvöngum víðs vegar um Frakkland; Saint-Denis, Marseille, Lyon, Lille, París, Boreaux, Saint-Étienne, Nice, Lens og Toulose.

Ráðstafanir verða gerðar

Flugfélögin Icelandair og WOWair fljúga einungis til Parísar í Frakklandi en flogið er alla daga vikunnar á þessum tíma. Ef litið er til þess að um fjögur þúsund Íslendingar voru í Amsterdam í gær má telja ljóst að mikil eftirspurn verður eftir flugmiðum til Frakklands á dögunum í kringum leikina næsta sumar.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir engar ákvarðanir hafa verið teknar um að fjölga flugum á þessum tíma, en bætir við að félagið sé meðvitað um áhugann og eftirspurnina. Hann bendir á að enn sé ekki ljóst í hvaða riðli Ísland mögulega verður, né heldur í hvaða borgum yrði þá spilað. „Ég hugsa að flestir hinkri þangað til,“ segir hann. 

„Það er alveg öruggt að það verða gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að mæta eftirspurninni sem án efa verður mjög mikil,“ segir Guðjón.

Sömu sögu er að segja hjá WOW en Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi félagsins, segir að aukavélar verði fengnar til þess að mæta aukinni eftirspurn. Þá munu Gamanferðir, sem er að hluta í eigu WOW, bjóða upp á pakkaferðir. Hún bendir á að WOW hafi verið með eina aukavél á leikinn í Amsterdam og bætir við að uppselt hafi verið fyrir rúmum mánuði síðan. „Það verða því pottþétt gerðar ráðstafanir í kringum þetta,“ segir hún.

Íslenska landsliðið á þrjá leiki eftir, gegn Kasakstan og Lettlandi á heimavelli, en gegn Tyrklandi á útivelli. Ísland er efst í riðlinum með 18 stig, tveimur stigum meira en Tékkland og átta stigum á undan Hollendingum.

Á þessum stöðum fer Evrópumeistaramótið fram.
Á þessum stöðum fer Evrópumeistaramótið fram. Kort af Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK