Prag hefur lengi verið ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu en framboð á flugi frá Íslandi hefur ekki verið mikið þar sem ferðalangar hafa oftast þurft að millilenda á leiðinni í óreglulegu leiguflugi. Úr þessu verður bráðum bætt þar sem Íslandi verður bætt við leiðarkerfi Czech Airlines, stærsta flugfélags Tékklands á næsta ári.
Túristi greinir frá því að jómfrúarferðin verði farin sextánda júní nk.
Í boði verða tvær ferðir í viku fram í miðjan september og munu þotur Czech Airlines taka á loft frá Keflavíkurflugvelli skömmu eftir miðnætti aðfaranótt mánudags og föstudags. Farþegar lenda því í Prag í morgunsárið.
Daniel Šabík, talsmaður Czech Airlines, segir í samtali við Túrista að sala á ferðum hefjist líklega í þessari viku. Fargjöldin liggja því ekki fyrir.