Launahækkanir skapa ekki alltaf kaupmátt

Kaupmáttur hefur ekki fylgt launahækkunum á síðustu árum.
Kaupmáttur hefur ekki fylgt launahækkunum á síðustu árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kaupmáttur launa er nú orðinn hærri en nokkru sinni fyrr. Kaupmáttur á mælikvarða launavísitölu varð áður hæstur í ágúst 2007, náði aftur sama stigi í nóvember 2014 og hefur aukist síðan. Þessi þróun hefur hins vegar kostað verulegar launahækkanir. Frá árinu 2001 hafa laun hækkað um næstum 150 prósent á meðan kaupmáttur hefur aukist um 20 prósent.

Gert er ráð fyrir að kaupmáttur launa muni aukast um u.þ.b. fimm prósent á þessu ári og næsta, en í kringum tvö prósent 2017 og 2018 ef fer fram sem horfir.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbanka Íslands. 

Nú er kjarasamningum lokið fyrir rúmlega níutíu prósent af vinnumarkaðnum eftir að kjaraviðræður hófust á fyrri hluta þessa árs. Síðustu samningar eru almennt á svipuðum nótum og þeir samningar sem gerðir hafa verið á opinbera vinnumarkaðnum að undanförnu og byggja á Salek-samkomulaginu svokallaða sem náðist í október milli aðila vinnumarkaðarins.

Þrátt fyrir að umræðan um launahækkanir sé oftast hæst í kringum gerð kjarasamninga hækka launin ekki mest strax í kjölfar þeirra. Hækkunartakturinn hefur verið nokkuð stöðugur og allt frá miðju ári 2012 hefur launavísitalan hækkað um fimm til sex prósent á ári en tók síðan kipp í sumar. Þetta skýrst líklega annars vegar af launaskriðinu sem verður til á hverju samninstímabili auk þess sem verið er að gera kjarasamninga og semja um launahækkanir á löngum tíma áður og eftir að stóru samningarnir eru gerðir. 

Hagstæð þróun

Á síðasta ári var þróunin almennt verulega hagstæð og regluleg laun landsmanna voru að jafnaði 8,2 prósentum hærri í september 2015 en í sama mánuði 2014. Kaupmáttur jókst að meðaltali um 6,2 prósent á þessu tímabili.

Þvert á allar spár rauk verðbólga ekki upp í kjölfar samninganna í vor og koma þar ýmsir þættir til.

Hagfræðideildin bendir á að hugsanlega hafi fyrirtæki haft meira svigrúm en talið var til þess að taka á sig launahækkanir, en kannski séu þau að sýna þolinmæði og bíða þar til ljóst verður með framlengingu eða uppsögn kjarasamninga.

Meginskýringuna á lítilli verðbólgu sé hins vegar að finna í lækkun á innfluttu verðlagi sem kemur m.a. til vegna lágs hrávöruverðs, styrkingar krónunnar og verðhjöðnunar á innflutningsmörkuðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK