Leiðir Vals og Vodafone skilur

Vodafonehöllin mun ekki lengur heita Vodafonehöllin.
Vodafonehöllin mun ekki lengur heita Vodafonehöllin. mynd/Já.is

Fjarskiptafyrirtækið Vodafone hefur ákveðið að endurnýja ekki styrktarsamning sinn við Valsmenn. Fyrir vikið munu nöfnin Vodafone-höllin og Vodafone-völlurinn hverfa á braut. Í stað þeirra verða tekin upp nöfnin Valshöllin Hlíðarenda og Valsvöllurinn Hlíðarenda.

„Stjórnin og við sem erum í félaginu erum að velta fyrir okkur næstu skrefum, hvort það verður nýr styrktaraðili fenginn fyrir höllina og völlinn eða ekki,“ segir Jóhann Helgason, framkvæmdastjóri Vals.

Hann segir vel koma til greina að fá nýjan styrktaraðila en „allt þurfi að passa“ í þeim efnum. Samningurinn þurfi að vera hagstæður og Valsmenn þurfi að vera tilbúnir að selja nafnið á nýjan leik.

Að sögn Jóhanns kom Vodafone að máli við Valsmenn eftir að samningurinn rann út í sumar og skömmu eftir fund þeirra á milli varð niðurstaðan sú að Vodafone vildi róa á önnur mið. Samningurinn var þó endurnýjaður fram á haust en er núna á enda runninn.

Svipaðar tekjur á næsta ári 

Aðspurður hvort þetta séu ekki vonbrigði fyrir Valsmenn segir Jóhann: „Þetta er búið að vera mjög gott og farsælt samstarf. Ef menn vilja taka ákvörðun eins og þessa þá verður maður bara að leita á önnur mið. Það er velta á þessum markaði eins og öðrum.“

Þrátt fyrir að missa stóran styrktaraðila segir Jóhann að Valsmenn verði með svipaðar tekjur frá styrktaraðilum á næsta ári og þeir hafa verið með á þessu ári.  Þar hjálpar til samstarf við nýjan styrktaraðila sem tilkynnt verður um á næstunni.

Hann bætir við að skipt verði um nafn á Vodafone-höllinni og -vellinum síðar í desember þegar merkingarnar verða teknar niður af mannvirkjunum.

Áhersla á nýsköpun og netið 

Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Vodafone, segir að samstarfið við Valsmenn hafi verið gott og fyrirtækið sé stolt af stuðningi sínum við félagið, sem hafi verið myndarlegur. „Þetta fór allt fram í góðu. Við höfum verið að endurskoða styrktarstefnuna okkar. Við erum í auknum mæli að færa áherslurnar yfir á nýsköpun og örugg samskipti á netinu. Svo er Vodafone líka einn af helstu bakhjörlum Landsbjargar,“ segir Gunnhildur Ásta og bætir við að ekki sé á döfinni að styrkja annað íþróttafélag á þennan hátt.

Átta ár frá undirritun

Samningur Vodafone og Valsmanna var undirritaður í lok júní 2007. Þetta var í annað sinn á Íslandi sem undirritaður var samningur milli íþróttafélags og fyrirtækis úr atvinnulífinu þess efnis að íþróttamannvirki félagsins beri nafn fyrirtækisins.  Áður hafði knattspyrnufélagið Reynir gert samning við Sparisjóð Keflavíkur um að íþróttavöllurinn í Sandgerði myndi bera nafn fyrirtækisins. 

Vodafone-höllin er um 2.200 fermetrar og er búin 1.300 sætum, auk þess sem 700 áhorfendur geta staðið. Stúkan við Vodafone-völlinn tekur 1.500 manns.

Stutt er síðan nýtt gervigras var lagt á Vodafone-völlinn. Með því vildu Valsmenn auka nýtinguna á vellinum.

Frá leik Vals og Snæfells í Vodafonehöllinni.
Frá leik Vals og Snæfells í Vodafonehöllinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK