Þrjár pantanir á hverri mínútu

Starfsmenn vöruhúsa víða um heim höfðu nóg að gera í …
Starfsmenn vöruhúsa víða um heim höfðu nóg að gera í gær. AFP

Sölumet á heimsvísu var slegið á Cyber Monday í gær og voru Íslendingar ekki undanskildir í kaupæðinu. Aldrei hafa fleiri verslað á Heimkaupum á einum sólarhring og voru pantanir í heildina um fjögur þúsund talsins. Það jafngildir um þremur pöntunum á hverri einustu mínútu.

Útsalan hefur verið framlengd út daginn vegna fjölda áskorana frá fólki sem fékk útborgað í dag.

Að sögn Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóra Heimkaupa, voru hátt í tvö þúsund manns mættir á heimasíðuna á miðnætti, aðfaranótt mánudagsins. Nokkur hundruð manns voru á síðunni undir morgun áður en traffíkin róaðist aðeins og fór síðan aftur upp yfir daginn.

„Það virðast margir hafa verið að klára jólainnkaupin,“ segir Guðmundur aðspurður um skyndilegt kaupæði.

Sækja á erlenda netrisa

Heimkaup er í eigu Magna verslana ehf., félags í eigu Guðmundar Magnasonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Guðmundur keypti rekstur Heimkaupa frá Móbergi ehf. á síðasta ári. Guðmundur er fyrrum framkvæmdastjóri Latabæjar, BT og fleiri fyrirtækja.

Samkvæmt markaðsrannsókn Meniga virðist Heimkaup hafa sótt í sig veðrið hér á landi á kostnað erlendra netrisa á borð við Amazon og Ali Express. Markaðshlutdeild Heimkaupa jókst um 6,2 prósent á þriðja ársfjórðungi þessa árs samanborið við við sama tímabil í fyrra en markaðshlutdeild Amazon dróst hins vegar saman um 2,5 prósent og markaðshlutdeild Ali Express dróst saman um 1,7 prósent.

Guðmundur segir vöruúrvalið hafa verið aukið mikið og var bókatitlum t.a.m. sérstaklega fjölgað. „Íslendingar hafa verið svolítið aftarlega á merinni í netverslun en það gerist stundum, þegar Íslendingar fara af stað, að þá fara þeir sko af stað,“ segir Guðmundur léttur. „Það virðist ekki lengur vera neitt tiltökumál að versla á netinu.“

Cyber Monday hefur í nokkur ár verið einn stærsti verslunardagur ársins erlendis og er svar netverslana við svokölluðum Black Monday sem var á föstudaginn. 

Frétt mbl.is: „Það hrúguðust allir á brettið“

Samkvæmt gögnum Adobe tölvurisans var alþjóðlegt sölumet sett í ár og hafa aldrei fleiri vörur verið uppseldar á sama tíma. Talið er að salan í lok dagsins hafi numið 2,98 milljörðum dollara, eða 396 milljörðum króna. Heildarsalan um helgina, þ.e. frá Black Friday og undir lok Cyber Monday, nam um ellefu milljörðum dollara, eða um 1.463 milljörðum íslenskra króna. Þetta er um fimmtán prósenta aukning milli ára.

Samkvæmt sömu gögnum voru um þrettán af hverjum hundrað vörum uppseldar á hverjum tíma en þetta er rúmlega tvöfalt venjulegt hlutfall.

Mest seldu raftækin voru Samsung 4K sjónvörp, Xbox og Apple iPad Mini. Star Wars lék stórt hlutverk í leikfangasölu og voru mest seldu leikföngin m.a. Star Wars fígúrur og jóladagatöl. 

Meðalafslátturinn var 20,3 prósent.

Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Heimkaupa.
Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Heimkaupa. Oli Haukur
Margir nýta þessa afsláttarhelgi fyrir jólagjafainnkaup.
Margir nýta þessa afsláttarhelgi fyrir jólagjafainnkaup. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK