Rekstrarleyfi Austurs fellt úr gildi

Ásgeir Kolbeinsson, einn eigenda Austurs.
Ásgeir Kolbeinsson, einn eigenda Austurs. Friðrik Tryggvason

Rekstrarleyfi skemmtistaðarins Austurs hefur verið fellt úr gildi. Ásgeir Kolbeinsson, einn eigenda staðarins er skráður fyrir leyfinu og er félagið 101 Austurstræti ehf. handhafi þess.

Ásgeir gerði fyrir nokkru síðan þjónustusamning um ákveðna þætti rekstursins við félagið Austurstræti 5 ehf. og í nýjum úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins segir að samningurinn fari út fyrir það sem eðlilegt þykir að útvista í rekstri veitingastarfsemi.

Leyfið er fellt niður á grundvelli 3. mgr. 15. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald en þar segir að heimilt sé að svipta menn leyfinu að fullu ef leyfishafi verður ítrekað uppvís af því að misnota það eða vanrækja skyldur og lög sem um reksturinn gilda.

Í fyrsta lagi er tekið fram í úrskurðinum að fyrrnefndur þjónustusamningur hafi ekki verið undirritaður af báðum prókúruhöfum félagsins, en það eru þeir Ásgeir og Gholamhossein M. Shirazi. Þegar af þeirri ástæðu verður að telja samninginn ógildan.

Bent er á að Austurstræti 5 ehf. hafi ekki leyfi til áfengisveitinga en samt sem áður hafi það verið að greiða heildsölum fyrir áfengi auk þess sem tekið er fram að áfengið hafi líklega verið selt á veitingastaðnum.

Þá hefur félagið einnig verið að greiða laun til starfsmanna. Einnig sýndu reikningsyfirlit að úttektir af reikningum hafi verið merktar 101 Austurstræti en engar sannanir voru því að þessir fjármunir hefðu verið mótteknir hjá félaginu.

Ekki hægt að nota annað félag fyrir grundvallarþætti

Í úrskurðinum segir að ekki sé eðlilegt að handhafi rekstrarleyfis geti notað annað félag til þess að sinna grundvallarþáttum í starfsemi veitingastaðar, svo sem áfengiskaupum, innkaupum og almennum rekstri, þar á meðal viðtöku fjármuna inn á reikning sem er ekki í eigu rekstraraðila.

Líta verði svo á að rekstrarleyfið sé gefið út til viðkomandi lögaðila og hans eingöngu.

Samkvæmt fyrrnefndum lögum hefur lögreglan heimild til þess að loka stöðum sem starfa án tilskilins leyfis.

Málefni Austurs hafa nokkuð oft ratað í fjölmiðla á síðustu misserum þar sem eigendur hafa staðið í miklum deilum og hafa kærur flogið á víxl.

Ásgeir stofnaði félagið Austurstræti 5 ehf. til þess að halda rekstri staðarins gangandi eftir að félagið hafði ekki lengur aðgang að bankareikningum sínum og þjónustusamningur við Borgun vegna greiðslumiðlunar var felldur úr gildi.

Frétt mbl.is:Frétt mbl.is: Kær­urn­ar fljúga milli eig­enda Aust­urs

Frétt mbl.is: Fá ekki aðgang að Austur

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK