Hagnaður Marel fimmfaldaðist

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels. mbl.is/Árni Sæberg

Hagnaður Marel nærri fimmfaldaðist milli ára og nam 56,7 milljónum evra, eða sem jafngildir rúmum átta milljörðum króna, árið 2015, samanborið við 11,7 miljónir evra, eða 1,7 milljarða króna, árið áður.

Þetta kemur fram í uppgjöri Marel sem birtist eftir lokun markaða í gær. Marel náði 15 prósent tekjuvexti á árinu 2015 og var leiðréttur rekstrarhagnaður, eða EBIT, 100 milljónir evra eða 12,2 prósent af tekjum samanborið við 49 milljónir evra árið 2014.

Sjóðstreymi ársins 2015 var sterkt sem leiðir til þess að skuldahlutfall fyrirtækisins er 1,05 samanborið við 2,08 í árslok 2014.

Hagnaður á hlut árið 2015 er 7,93 evru sent samanborið við 1,60 evru sent árið 2014.

Pantanabókin í upphafi ársins 2016 stendur í 181 milljónum evra samanborið við 175 milljónir evra í árs-byrjun 2015.

Tekjur Marel á fjórða ársfjórðungi síðasta árs námu 201,9 milljónum evra, samanborið við 200 milljónir evra árið áður. Leiðrétt EBITDA á fjórða ársfjórðungi var 30 milljónir evra sem er 14,9 prósent af tekjum.

Frábært ár á enda

Í tilkynningu er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marel, að síðasta ár hafi verið frábært. „Tveggja ára áætlun okkar um einfaldara og skilvirkara Marel hefur nú runnið sitt skeið og skilað miklum árangri, sem m.a. má sjá í hagræðingu á vöruframboði og framleiðslu-einingum félagsins auk þess sem reksturinn hefur verið straumlínulagaður.“

Félagið fækkaði framleiðslustöðum úr nítján í níu og á sama tímabili fækkaði starfsmönnum félagsins á heimsvísu um 200 og tekjur jukust. 

Marel gekk þann 29.janúar 2015 formlega frá kaupum á MPS. Heildarkaupverð var 382 milljónir evra.

Samkvæmt  drögum að uppgjöri frá MPS fyrir rekstrarárið 2015 nema tekjur ársins 158 milljónum evra og EBITDA nemur 41 milljónum evra. 

Tekjur sameinaðs félags Marel og MPS (e. pro-forma) á árinu 2015 námu 977 milljónum evra og leiðréttur rekstrarhagnaður (EBIT) 133 milljónum evra.

Í tilkynningu segir að eftir tímabil mikils vaxtar geri Marel ráð fyrir  hóflegum innri vexti í tekjum og rekstrarhagnaði sameinaðs félags fyrir árið 2016.

Greiða 1,6 milljarða í arð

Á aðalfundi Marel, sem haldinn verður 2. mars næstkomandi, mun stjórn Marel leggja til að hluthafar fái greidd 1,58 evru sent í arð á hlut fyrir rekstrarárið 2015.

Fyrirhuguð heildararðgreiðsla nemur um 11,3 milljónum evra, eða 1,6 milljarði króna, sem samsvarar um 20 prósent af nettó hagnaði ársins. 

Verði tillagan samþykkt af hluthöfum félagsins, munu hlutabréf sem skipta um hendur frá og með 3. mars 2016 verða án arðsréttinda og réttur hluthafa til arðgreiðslu verður miðaður við hlutaskrá félagsins í lok viðskipta hinn 4. mars 2016 sem yrði arðsréttindadagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK