Benda á fleiri grandlausa

Lands­bank­inn seg­ist hafa vitað val­rétt­ur væri fyr­ir hendi.
Lands­bank­inn seg­ist hafa vitað val­rétt­ur væri fyr­ir hendi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eftir því sem Landsbankinn best veit hafa aðrir þeir sem selt hafa hlutabréf í Borgun á undanförnum árum ekki heldur verið meðvitaðir um mögulegan rétt Borgunar til hlutdeildar í valréttargreiðslum Visa Europe.“

Þetta segir í svarbréfi Landsbankans til Bankasýslu ríkisins þar sem viðskipti undanfarinna ára eru rifjuð upp.

Landsbankinn bendir á að á árinu 2010 hafi Íslandsbanki sóst eftir því að eignast félagið Kreditkort hf. að fullu, en Landsbankinn átti hlut í félaginu. Úr varð að Íslandsbanki tók félagið yfir. Landsbankinn seldi Íslandsbanka hluti sína í Kreditkortum gegn greiðslu með hlutum í Borgum. Ekkert hafi þá komið fram um að Borgun ætti, eða gæti átt rétt á greiðslum vegna samruna Visa Inc. og Visa Europe og enginn fyrirvari var gerður um slíkt.

Í mars 2011 eignaðist Landsbankinn 4,2 prósent hlut í Borgun með kaupum á SpKef af fjármálaráðuneytinu. Seljandinn, íslenska ríkið, áskildi sér engan rétt til greiðslna vegna valréttarins.

Íslandsbanki keypti síðan undir árslok 2011 fjármálafyrirtækið Byr hf. af slitastjórn Byrs sparisjóðs. Um tuttugu prósent hlutur í Borgun fylgdi með kaupunum. Seljendur Byrs voru annars vegar slitastjórnin með um 88 prósent hlut og hins vegar ríkissjóður með 12 prósent hlut, en ríkissjóður hafði lagt til fjármuni við stofnun Byrs.

Meðal kröfuhafa sem áttu mikilla hagsmuna að gæta voru lífeyrissjóðir. Óháð fjármálafyrirtæki var fengið til ráðgjafar í söluferlinu. Landsbankinn gerði einnig tilboð í Byr. Engar upplýsingar komu þá fram um að Borgun gæti átt rétt á greiðslum vegna samruna Visa Inc. og Visa Europe að sögn Landsbankans.

Þá segir að fleiri viðskipti hafi átt sér stað með hluti í Borgun á árunum 2009 til 2014 en að Landsbankinn viti ekki til þess að fyrirvari um greiðslur vegna samruna Visa Inc. og Visa Europe hafi verið gerður í þeim viðskiptum. 

„Í þessu samhengi má geta þess að í fjölmiðlum hefur komið fram að stjórnendur Íslandsbanka hafi engar upplýsingar haft um að Borgun ætti rétt á hlutdeild í söluandvirði Visa Europe í júní 2014 þegar bankinn hafnaði tilboði hóps fjárfesta og stjórnenda í hlut bankans,“ segir í bréfi Landsbankans.

Að síðustu er þá minnst á yfirtöku ríkisins á Íslandsbanka. Í bréfinu er bent á að með yfirtökunni hafi íslenska ríkið tekið yfir 63,47 prósent eignarhlut bankans í Borgun. Eftir því sem fram hafi komið í fjölmiðlum hafi Glitnir ekki áskilið sér rétt til hlutdeildar í þeirri greiðslu sem Borgun á von á vegna sölu á hlutabréfum félagsins í Visa Europe.

Hér má lesa bréf Landsbankans í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK