Lögfræðingar hugi að sínum málum

Fyrirkomulagið gæti til lengri tíma skaðað hagsmuni lögfræðingastéttarinnar segir lögmaður …
Fyrirkomulagið gæti til lengri tíma skaðað hagsmuni lögfræðingastéttarinnar segir lögmaður ASÍ. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Vel þekkt er í löndum Evrópu og í Bandaríkjunum að ungt fólk þurfi mjög að hafa fyrir aðgangsmiðanum að vinnumarkaðnum. Ef ekkert verður að gert verður staðan hér á landi ekki lengi að þróast enn lengra í sömu átt.

Þetta kemur fram í grein sem Halldór Oddson, lögmaður Alþýðusambands Íslands, ritaði í Úlfljót, tímarit laganema við Háskóla Íslands, í lok síðasta árs. 

Lögmaður Bandalags háskólamanna hefur sent flugfélaginu WOW air bréf vegna starfsauglýsingar þar sem auglýst er eftir laganema sem lokið hefur að minnsta kosti þriggja ára háskólanámi og útskrifast með B.A. gráðu í lögfræði. Telur sambandið hæfniskröfurnar benda eindregið til þess að um ólaunað starf sé að ræða. Það brjóti gegn lög­um starfs­kjör launa­fólks og skyldu­trygg­ingu líf­eyr­is­rétt­inda.

Frétt mbl.is: WOW auglýsir ólaunað starf segir BHM

Umræðan er ekki ný af nálinni. Útskrifaðir lögfræðingar hafa aldrei verið fleiri og ljóst er að samkeppnin hefur aukist samhliða því. Þegar komið er út á vinnumarkaðinn eru miklar kröfur gerðar um reynslu og er því mikilvægt að hafa unnið í lögfræðitengdum störfum. 

Í bréfi BHM er bent á að ís­lensk­ir há­skól­ar hafi búið til reglu­verk um starfs­nám nem­enda í fram­halds­námi. Þá segir að sambandið hafi ekki samþykkt reglu­verkið og að sérstakar at­huga­semd­ir séu gerðar við regl­ur laga­deild­ar Há­skól­ans í Reykja­vík, sem ganga út á að starfs­námið sé ólaunað.

Er þetta réttlætanlegt?

Í grein Halldórs segir að hið ólaunaða starfsnám og aukin útbreiðsla þess sé skýr og greinileg birtingarmynd þess sem er að eiga sér stað á markaðnum. Fullt tilefni sé fyrir laganema og stétt ungra lögfræðinga að huga að sínum málum.

Í öllu falli verði að telja sjálfsagt að hagsmunasamtök nemenda og stéttarfélög á viðkomandi kjarasamningssviðum eigi samræður við háskólana um hvort réttlætanlegt sé að atvinnurekendum sé boðið upp á ókeypis vinnuframlag nemenda.

Hinar ýmsu stéttir launafólks á Íslandi sem og annars staðar hafi staðið í nákvæmlega sömu sporum og ungir lögfræðingar standa nú í.

Starfsnám er eftirsótt meðal nemenda enda samkeppnin orðin mikil og …
Starfsnám er eftirsótt meðal nemenda enda samkeppnin orðin mikil og reynsla mikilvæg á ferilskrána. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ólöglegt fyrirkomulag

Bent er á að það fyrirkomulag að greiða laganemum eða ungum lögfræðingum laun í formi námseininga og hugsanlega meðmæla eða óljóss loforðs um starf í framtíðinni brjóti gegn lögum um greiðslu verkkaups. „Einfaldara verður það ekki,“ skrifar Halldór. „Brot gegn lögum þessum eru í dag mjög óalgeng og óvenjuleg og eiga sér bara stað í aðstæðum þar sem um er að ræða einstaklinga sem búa við mikla neyð eða óöryggi.“

Í starfsauglýsingu WOW segir t.d. að starfið sé ólaunað en ef gagnkvæmur áhugi sé fyrir hendi gæti sumarstarf verið í boði í framhaldinu. 

„Pandóru-askja félagslegra undirboða“

Auk þessa segir Halldór ljóst að kjarasamningar gildi um störfin. „Undirritaður telur sig geta fullyrt að enginn þessara kjarasamninga né stéttarfélaganna sem að þeim standa blessa það, að gengið sé í störfin af vinnuafli sem fær ekki greidd laun.“

Halldór bendir á að háskólarnir hafi samþykkt þessa framkvæmd og tileinkað sér hana. Með því hafi þeir mögulega „opnað með óljósum viðmiðunum og eftirliti pandóru-öskju félagslegra undirboða“.

Það geti til lengri tíma skaðað hagsmuni lögfræðingastéttarinnar. „Þetta gerist á sama tíma og hagur eigenda lögmannsstofa hefur vænkast og hið opinbera skorði niður laun og störf lögfræðinga,“ skrifar Halldór.

„Með öðrum orðum þá virðist að skammtímahagsmunir einstaklinga hafi verið settir framar langtímahagsmunum einstaklinga sem og lögfræðingastéttarinnar í held sinni.“

Hin umdeilda starfsauglýsing WOW.
Hin umdeilda starfsauglýsing WOW.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK