Forsendur fyrir miklu betri þjónustu

Birgir Jakobsson landlæknir.
Birgir Jakobsson landlæknir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Væntanlegar breytingar á starfsumhverfi heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu skapa forsendur fyrir miklu betri þjónustu og auka líkurnar á því að fjármagn fari í rétta hluti að sögn Birgis Jakobssonar, landlæknis.

Kristján Þór Júlí­us­son, heil­brigðisráðherra, kynnti breytingarnar í morgun en á fundinum voru einnig viðstödd landlæknir, Þórarinn Ingólfsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna, Oddur Steinarsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Hrafnhildur Halldórsdóttir, svæðisstjóri heilsugæslunnar í Mjódd, sem hefur verið með fyrstu stöðvum að fara í gegnum breytingarnar.

Líkt og mbl greindi frá í morgun snýr viðamesta breytingin að breyttri fjár­mögn­un. Stefnt er að því að innleiða breytingarnar á miðju ári og verður fjármögnun heilsugæslustöðvanna þá skipt í tvennt þar sem annars vegar verður um að ræða níutíu prósent fasta fjármögnun og hins vegar tíu prósent breytilega fjármögnun sem ræðst m.a. af gæðum þjónustunnar.

Frétt mbl.is : Heilsu­gæsla fjár­mögnuð eft­ir gæðum

Þá er stefnt að því að opna þrjár nýjar heilsugæslustöðvar sem annað hvort verða á hendi opinberrar stofnunar eða félags sem stofnað verður um rekstur viðkomandi stöðvar. Ítarleg kröfulýsing hefur þegar verið búin til og munu Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands auglýsa eftir rekstraraðilum. Ekki er um eiginlegt útboð að ræða þar sem niðurstöðurnar eiga ekki að ráðast af verði heldur gæðum.

Stefnt er að því að heilsugæslurnar nýju hefji starfsemi í haust en ekki er gert ráð fyrir auknu fjármagni fyrir rekstri þeirra heldur eiga þær að fjármagna sig sjálfar út árið.

Bætt starfsskilyrði aðalatriðið

Í stuttu máli geng­ur þessi breytta fjár­mögn­un út á það að fjár­magn til hverr­ar stöðvar á að end­ur­spegla þann sjúk­linga­hóp sem viðkom­andi stöð þjón­ar. Fólki verður frjálst að skrá sig á hvaða heilsugæslu sem það vill og er markmiðið að skapa samkeppni á milli stöðva og auka val sjúklinga.

„Ég var úti í Stokkhólmi í síðustu viku og spjallaði þar við lækna og spurði þá hvað þyrfti að koma til þess að þeir myndu hafa áhuga á að koma inn í íslenskt heilbrigðiskerfi,“ sagði Birgir Jakobsson, landlæknir, á fundinum. „Það voru nánast allir sammála um það að laun lækna á Íslandi í dag væru samkeppnishæf við laun lækna í Svíþjóð. Það var ekki aðalatriðið. Það sem þeir settu á oddinn voru starfsskilyrðin sem okkur eru búin á Íslandi“ sagði Birgir og bætti við að verið væri að kynna stórt skref fram á við að hans mati.

Þórarinn Ingólfsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna, benti á að fyrirliggjandi kröfulýsing væri mjög nákvæm og setti miklar kröfur á gæði og öryggi sjúklinga með góðu aðgengi. Kristján Þór tók undir þetta og sagði stífar kröfur vera gerðar um gæði.

Stíga varlega til jarðar

Líkt og áður segir mun breyti­leg­i hluti fjár­mögn­un­ar­inn­ar ráðast af þátt­um sem snúa að gæðum veittr­ar þjón­ustu og fé­lags­leg­um þátt­um að hluta. Þar verður m.a. horft til fram­kvæmd­ar á skrán­ingu heil­brigðis­upp­lýs­inga, reglu­bund­inn­ar skoðunar og end­ur­mats á lyfja­notk­un aldraðra og að hve miklu leyti fólk held­ur tryggð við heilsu­gæslu­stöðina þar sem það er skráð.

Oddur Steinarsson, framkvæmdastjóri lækninga, sagði að stíga þyrfti varlega til jarðar í þessum efnum og horfa til þessara fyrrgreindra öruggra gæðavísa. Kristján sagði hugmyndir um að auka vægi fjármögnunar eftir gæðum ekki vera á borðinu.

Yngri læknar jákvæðari

Þórarinn hefur ekki gert formlega viðhorfskönnun meðal félagsmanna vegna breytinganna en sagðist þó hafa þreifað fyrir sér og telur jákvæðan tón vera í fólki. Þó kannski meira meðal yngri lækna en eldri lækna. Allir læknar væru þó almennt til að að setja allan sinn metnað í að bæta gæði veittrar þjónustu.

Þórarinn sagðist þó ekki skilja skilyrðið um að óheimilt verði að taka arð út úr rekstri heilsugæslustöðvana og sagði óljóst hvers vegna þessir rekstraraðilar þurfi að vinna við önnur skilyrði en aðrir og bætti við að slíkar hömlur væru almennt ekki að finna á hinum Norðurlöndunum.

Hrafnhildur Halldórsdóttir, svæðisstjóri heilsugæslunnar í Mjódd, sem hefur verið með fyrstu stöðvum að fara í gegnum breytingarnar sagði þær mjög jákvæðar og hvetja til aukinnar samvinnu.

Hún sagði starfsmenn vera farna að skipta sér upp í teymi og hugsa sem eina liðsheild í stað þess að einblína á einstaklingsvinnu. „Framtíðarsýn okkar er að geta tekið á smáslysum og létt á bráðamóttökunni en það er staðreynd að þeir eru að fá talsvert magn af sjúklingum sem eiga að koma til okkar,“ sagði Hrafnhildur.

BSRB hefur mótmælt breytingunum en í yfirlýsingu frá samtökunum segir eðli­legt sé að nýj­ar heilsu­gæslu­stöðvar verði fjár­magnaðar af al­manna­fé eins og þær sem fyr­ir eru, og starfi sam­kvæmt sama fyr­ir­komu­lagi. Líkt og áður segir verða nýju heilsugæslunnar annað hvort á hendi opinberrar stofnunar eða félags sem stofnað verður um rekstur viðkomandi stöðvar.

Frétt mbl.is: Heilsa fólks ekki eins og aðrar vörur

Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Fjár­veit­ing til heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins er 6.091,4 millj­ón­ir króna sam­kvæmt fjár­lög­um …
Fjár­veit­ing til heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins er 6.091,4 millj­ón­ir króna sam­kvæmt fjár­lög­um 2016. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK