„Afskaplega þakklátur og hálfhrærður“

Sævar Helgi Bragason.
Sævar Helgi Bragason. mbl.is/ Golli

Sævar Helgi Bragason, eigandi Stjörnufræðivefjarins, segir sterk viðbrögð við frétt mbl.is af gjaldþroti vefjarins hafa komið sér á óvart. Gjaldþrotið má rekja til sólmyrkvagleraugnanna sem fé­lagið seldi og gaf í fyrra en í dag hefur Sævar fengið mörg símtöl frá einstaklingum sem vilja styðja hann, auk þess sem borgarfulltrúinn Hildur Sverrisdóttir kastaði því fram á Facebook-síðu sinni að skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar ætti að taka þátt í hópfjármögnun vegna skuldar vefjarins, sem nemur 450 þúsund krónum. 

Frétt mbl.is: Gjaldþrot vegna sólmyrkvagleraugna

„Þetta er eiginlega bara farið að minna á mars í fyrra, þegar maður var í símanum allan daginn,“segir Sævar hlæjandi og vísar þar til þeirrar gríðarlegu spurnar sem skapaðist eftir fyrrnefndum sólmyrkvagleraugum. 

„Viðbrögðin hafa verið rosalega flott. Ég átti ekki von á því að fólk væri svona viljugt til að styðja það sem við vorum að gera. Fyrir það er ég bara afskaplega þakklátur og hálfhrærður.“

Hugðist greiða úr eigin vasa

Sævar hafði hugsað sér að greiða úr eigin vasa þær 450 þúsund krónur sem út af stóðu eftir gleraugnaævintýrið. Endurskoðandi félagsins hafi átt að skila virðisaukaskattskýrslu en aldrei fékk Sævar rukkun. 

„Ég vil bara fá að greiða það sem mér ber að greiða og mér skilst að það sé allt í vinnslu. Ég vona að fólkið sem vinnur við þessi mál hjá skattinum sjái það að þetta sé eitthvað sem þurfi að leysa í góðu.“

Sævar segist engar kröfur gera á borgina, enda hafi hans samstarf við borgina á sínum tíma verið „bara allt í lagi“ þó svo að stjórnendur hennar hafi ekki verið sammála honum um hvort rétt væri að gefa skólabörnum gleraugun. Hins vegar hafi fjölmargir einstaklingar haft samband við hann sem vilji leggja sitt af mörkum.

„Ég hef ekki hugmynd um hvað hefur komið inn af stuðningi en ég kíki betur á það á eftir eða á morgun þegar ég veit meira, því það er verið að vinna í einhverjum hlutum núna í tengslum við þetta sem ég kann engin skil á, enda skil ég ekkert í sambandi við svona fjármál.“

Sævar segir þó að miðað við viðbrögðin telji hann ljóst að hann muni ekki þurfa að greiða alla upphæðina úr eigin vasa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK