Leigjendur ná varla að leggja fyrir

Um fjórðungur leigjenda virðist ná að leggja eitthvað fyrir.
Um fjórðungur leigjenda virðist ná að leggja eitthvað fyrir. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Upplifun leigjenda af leigumarkaðnum hér á landi virðist hafa versnað töluvert á síðustu árum. Færri telja sig búa í öruggu húsnæði og mun fleiri eiga mjög erfitt með að verða sér úti um leiguhúsnæði. Þá nær einungis fjórðungur leigjenda að leggja fyrir.

Þetta er meðal þess sem fram í kemur niðurstöðum Gallup-könnunar á viðhorfum leigjenda og húseigenda til húsnæðismarkaðarins. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti niðurstöður á fundi velferðarráðuneytisins um húsnæðismál í morgun.

Könnunin er umfangsmikil og felur í sér yfir 260 spurningar. Hún var gerð í lok síðasta árs og byggja niðurstöðurnar á svörum 650 til 800 leigjenda og 2.266 eigenda.

Erfiðara að redda leiguhúsnæði

Um 25,7 prósent aðspurða telja það vera mjög eða frekar líklegt að lenda í þeirri stöðu að missa núverandi húsnæði. Hlutfallið hefur hækkað töluvert frá árinu 2003 þegar 17,6% aðspurðra töldu sig búa í þessari óvissu. Þá hefur þeim sem telja húsnæðið sitt mjög öruggt snarlega fækkað úr 46,1% í 34,9%.

Mun fleiri segjast þá hafa átt mjög erfitt með að verða sér úti um húsnæði, eða um fjórðungur aðspurðra. Árið 2003 var hlutfallið 8,7%.

„Ég tel að niðurstaðan sé ótvírætt að sýna að mikil þörf er á að byggja upp leigumarkaðinn,“ segir Eygló Harðardóttir í samtali við mbl.is. „Þau húsnæðisfrumvörp sem við höfum verið að vinna að og eru nú á lokastigum í þinginu munu einmitt mæta þessum hópi sem er í brýnni þörf,“ segir Eygló.

Eygló Harðardóttir fór yfir niðurstöðurnar á fundi velferðarráðuneytisins.
Eygló Harðardóttir fór yfir niðurstöðurnar á fundi velferðarráðuneytisins. mbl.is/Styrmir Kári

Fjórðungur nær að leggja fyrir

Þegar litið er yfir leigumarkaðinn virðist einungis rúmur fjórðungur leigjenda ná að leggja fyrir og þá mögulega til að eiga fyrir útborgun við íbúðarkaup.

Samkvæmt niðurstöðunum eru um 21,8% þeirra sem eru á leigumarkaði að safna skuldum. Þá nota um 11,4% sparifé til að ná endum saman og flestir, eða 38,8%, segja enda ná saman með naumindum. Einungis 5,2% aðspurðra sögðust getað safnað talsverðu sparifé og sögðust 22,8% ná að safna svolitlu sparifé.

Flestir þeir sem eru að safna skuldum eru á leigumarkaði af nauðsyn, eða um 26,3%. Virðast þeir sem annaðhvort eru tímabundið á leigumarkaði eða velja þann kost frekar ná að leggja eitthvað fyrir.

Eygló telur að húsnæðisfrumvörpin muni auðvelda leigjendum róðurinn.
Eygló telur að húsnæðisfrumvörpin muni auðvelda leigjendum róðurinn. Morgunblaðið/Ómar

Búa til jákvæða hvata

Eygló segist hafa lagt mikla áherslu á þennan vanda með húsnæðisfrumvörpum sínum. „Með því að auka húsnæðisstuðninginn og bjóða upp á meira úrval af leiguíbúðum, þar sem fólk ætti ekki að vera að borga meira en 20 til 25 prósent í húsnæðiskostnað, ættum við að gera fólki kleift að leggja til hliðar,“ segir hún.

„Með þessu, ásamt því að gera fyrirkomulag séreignasparnaðar varanlegt, eins og fjármálaráðherra hefur verið að undirbúa, erum við að gera fólki kleift að eignast húsnæði,“ segir Eygló.

„Við höfum þarna fengið enn á ný staðfestingu á því að fólk er að borga allt of hátt hlutfall af sínum tekjum í leigu og þess vegna er svo mikilvægt að létta þar undir og búa til jákvæða hvata til þess að fólk geti lagt til hliðar og eignast húsnæði þegar það er tilbúið til að kaupa,“ segir Eygló.

Staðfesting á tilfinningu

Aðspurð hvort eitthvað í niðurstöðunum hafi komið Eygló sérstaklega á óvart vísar hún til breytingarinnar milli ára. „Þetta er staðfesting á því sem við höfum verið að finna í þunganum í umræðunni um leigumarkaðinn,“ segir hún.

„Einnig hversu óskaplega ólík staðan er hjá fólki sem annars vegar á húsnæði og hins vegar leigir,“ segir Eygló.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK