Delta Air Lines byrjar að fljúga milli Íslands og Minneapolis á morgun, 27. maí, og verður flogið daglega til septemberloka. Minneapolis bætist þar með við New York sem daglegur áfangastaður bandaríska flugfélagsins.
Með Minnaeapolis sem nýjan áfangastað er Delta að bregðast við gríðarlegum áhuga bandarískra ferðamanna á Íslandi og um leið fjölga valkostum fyrir íslenska ferðalanga vestur um haf. Alls verða fimmtán vikulegar flugferðir í boði með félaginu í sumar, þar af tvær á sunnudögum til New York.
„Með Minneapolis sem nýjan áfangastað mætum við vaxandi spurn eftir flugi milli Bandaríkjanna og Íslands,“ er haft eftir Nat Pieper, forstjóra Delta Air Lines í Evrópu, í tilkynningu. „Þessi flugleið þýðir einnig að viðskiptavinir hafa nú val um tengiflug samdægurs til 84 áfangastaða í Norður-Ameríku með Delta gegnum New York og Minneapolis, þar á meðal til Denver og San Francisco.“
Þegar Delta hóf starfsemi hér árið 2011 voru fimm ferðir farnar vikulega. Síðan þá hefur ferðatímabilið sífellt verið að lengjast og ferðum að fjölga. Í sumar verða um 5.900 sæti í boði í hverri viku. Delta tilkynnti jafnframt nýlega að í fyrsta sinn verði flogið allt árið til New York.
Líkt og fyrri ár er flogið milli Íslands og Bandaríkjanna með Boeing 757-þotum Delta. Þráðlaus tenging við netið er í boði á flugleiðunum, svo og afþreyingarkerfi fyrir alla farþega.
Innifalið í fargjaldi eru allar máltíðir, drykkir, innritaður farangur, handfarangur og sætaval.