Eina hlutverkið að hámarka arðsemi

Heiðar Guðjónsson hagfræðingur.
Heiðar Guðjónsson hagfræðingur. mbl.is/Kristinn

Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og stjórnarformaður Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, segir að hlutverk lífeyrissjóða sé aðeins eitt: að hámarka ávöxtun eigna sjóðsins að teknu tilliti til áhættu. Hlutverk sjóðanna sé ekki að vernda umhverfið, breyta tekjudreifingu samfélagsins eða hafa áhrif á laun stjórnarmanna, svo eitthvað sé nefnt.

Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Heiðars á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs Íslands, Kauphallarinnar og Samtaka atvinnulífsins á Icelandair hótel Reykjavík Natura í morgun. Fundurinn fjallaði um samvistir lífeyrissjóða og almennra fjárfesta á hlutabréfamarkaðinum.

Heiðar benti á að grunnur að hagkvæmri uppbyggingu fyrirtækja væri langtímafjármagn. Við Íslendingar byggjum svo vel að eiga nóg af því, hjá lífeyrissjóðunum, en þó aðeins á einum stað. Betra væri ef fjármagnið væri á fleiri stöðum. Hins vegar væri frábært að lífeyrissjóðirnir ættu fjármagn sem þeir gætu fest til langs tíma og væri þolinmótt.

Hugi að skyldum sínum

Fram kom í máli hans að stofnanafjárfestar, líkt og lífeyrissjóðir, færu með fé í umboði annarra. Því skipti máli að einhver gætti hagsmuna fjárins. Í því sambandi nefndi hann að lýðræði, eins og við þekkjum það í dag, veitti ekki aðeins réttindi, heldur fylgdu því einnig skyldur. Þeir sem tækju þátt í atvinnurekstri ættu ekki aðeins að hugsa um að fá arð eða fylgjast með nafnvirði bréfa sinna, heldur að líta á það sem skyldu sína að taka þátt í að byggja upp fyrirtækið og fylgja því eftir.

Einnig þyrftu allir að vera vissir um hvert þeirra hlutverk væri. „Hvert er hlutverk almenns fjárfestis? Hvert er hlutverk spákaupmanns? Stofnanafjárfestis? Hvert er hlutverk lífeyrissjóðanna? Miðað við umræðuna, og hvernig hún tekur oft stakkaskiptum í fjölmiðlum, þá má efast um að menn séu á eitt sáttir um hlutverk lífeyrissjóða,“ sagði Heiðar.

Hann sagðist hafa lesið hluthafa- og fjárfestingastefnur stærstu lífeyrissjóða landsins og að þær rímuðu vel við stefnur stærstu sjóða Bandaríkjanna, Kanada og Svíþjóðar, svo eitthvað sé nefnt. „Því það er bara eitt hlutverk. Hlutverkið er að hámarka ávöxtun eigna sjóðsins að teknu tilliti til áhættu. 

Hlutverk sjóðanna er ekki að vernda umhverfið, að breyta tekjudreifingu samfélagsins, að hafa áhrif á stjórnarlaun eða eitthvað slíkt. Það er bara eitt markmið.“

Hins vegar hefðu lífeyrissjóðirnir sagt, þegar þeir standa frammi fyrir tveimur jafngildum kostum að teknu tilliti til ávöxtunar og áhættu, að ef annar kosturinn er betri hvað varðar til dæmis samfélagslega ábyrgð, þá skuli velja hann.

Heiðar sagði að tilnefningarnefndir, sem hafa það hlutverk að tilnefna …
Heiðar sagði að tilnefningarnefndir, sem hafa það hlutverk að tilnefna menn til stjórnarsetu, hefðu gefið góða raun. mbl.is/Árni Sæberg

Tilnefningarnefndir gefist vel

Því næst fjallaði Heiðar um stjórnarkjör í fyrirtækjum. Hann sagðist hafa verið stjórnarformaður í fyrirtæki sem eignaðist eitt sinn stóran hlut í fyrirtæki í Finnlandi, Amer. Forstjóri fyrirtækisins hafi verið með yfir milljón evrur á ári í laun þrátt fyrir að reksturinn hafi bara rýrnað og rýrnað. Hann hafi einnig átt golfvöll í miðborg Helsinki út af fyrir sig sem og flugvél. Stjórnarmenn fyrirtækisins hefðu allir verið finnskir vinir forstjórans úr viðskiptalífinu. „Þótt þeir sæju vandamálið, þá voru allir svo meðvirkir að enginn gat fengið sig til þess að benda á það, enda fengu þeir að fara á golfvöllinn, í flugvélina, þeir áttu ekki beint hlutafé í fyrirtækinu og þurftu ekki að borga fyrir þetta.“

Heiðar segir að félag sitt hafi eignast 20% eignarhlut í finnska fyrirtækinu og strax kallað eftir breytingum. Það hefði hins vegar verið þrautinni þyngra.

Þeir hafi fengið samtök hlutafjáreigenda og nokkra lífeyrissjóði til liðs við sig og var loks hægt að koma því til leiðar að skipuð var sérstök tilnefningarnefnd sem átti að tilnefna einstaklinga í stjórn. Þurfti hún að leita álits utanaðkomandi ráðgjafa.

„Með því að leggja þetta fram þurfti ekki að fara fram einhver hallarbylting á hluthafafundi. Það var nóg að tilnefningarnefndin tæki þetta til sín og ynni úr gögnunum.

Þannig að friðurinn á stjórnarheimilinu varð betri og útkoman var þannig að stjórninni var breytt og um leið og búið var að breyta stjórninni var skipt um forstjóra og þegar því var lokið var farið í að framkvæma allar þær breytingar sem við höfðum lagt til. Fyrirtækið snerist við á tveimur árum og þrefaldaðist í virði,“ útskýrði Heiðar.

Hann sagði þessa sögu einnig skipta máli hér á Íslandi, enda værum við hér á þröngum markaði þar sem erfitt væri að taka á persónulegum málum. Nálgast þyrfti málin eins og fyrirtæki gera innanhúss hjá sér. 

„Menn eru með starfsmannastjóra, starfsmannastefnu og nálgast málin á faglegan hátt. Það er ekki bara gengið til kosninga á stjórnarfundi og svo kemur í ljós hvað gerist.“ Það þyrfti að huga að því að kynjahlutföll væru uppfyllt, eins aldursamsetningu og mismunandi þekkingu. Að stjórnin gæti virkað sem ein heild.

„Það þarf líka að hugsa út í það hvernig andrúmsloftið er innan stjórnarinnar. Er hún stjórnhæf, eru einhver illindi eða deilur sem gera það að verkum að allur tími yfirstjórnar fyrirtækisins fer í að friða stjórnarfundi?

Það skiptir gríðarlegu máli að stjórnin laði fram það besta hjá hverjum og einum og það er best gert með því að vera með einhvers konar ferli í kringum stjórnarkjör,“ sagði hann.

Réttindi hluthafa tryggð

Vodafone hefði til að mynda komið á fót sérstakri tilnefningarnefnd sem hefði gefist mjög vel. Vinna nefndarinnar færi af stað sex mánuðum fyrir aðalfund. Fundað væri með öllum stærstu hluthöfunum og þá hitti tilnefningarnefndin stjórnarmenn, hvern fyrir sig, og færu með þeim yfir það hvernig stjórnarsamstarfið gengi.

„Það sem þetta gerir líka er að þetta friðar samskipti hluthafa. Hluthafarnir þurfa ekki að gera þetta persónulegt. Þeir geta einfaldlega komið málinu í faglegan farveg og fengið uppbyggilega lausn,“ nefndi hann.

Hann sagði jafnframt af og frá að með nefnd sem þessari væru réttindi hluthafa virt að vettugi. Þau væru tryggð í hlutafélagalögunum. Löggjöfin gengi sérstaklega langt í að tryggja rétt minni hluthafa.

Tilnefningarnefndir hefðu gefið góða raun og það væri ekki að ástæðulausu að til dæmis öll símafyrirtæki í Evrópu, og yfir 95% af öllum skráðum fyrirtækjum í álfunni, hefðu komið slíkum nefndum á fót.

Snýst allt um traust

Þetta snerist þó alltaf um traust og traust kæmi með gagnsæi. „Menn þurfa að vita hvað þeir vilja. Menn þurfa að vita fyrir hvað þeir standa og til hvers er ætlast af þeim.“

Völdum fylgdi ábyrgð. Það gengi ekki að einn og einn svartur sauður viðhefði einhverja freklega framkomu. Stærsta orðsporsáhætta lífeyrissjóða landsins væri slíkur yfirgangur.

Frétt mbl.is: Eiga ekki að sitja á hliðarlínunni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK