Besta ársbyrjun Eimskips frá 2009

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips. mbl.is/Ómar Óskarsson

Síðasti ársfjórðungur var besti fyrsti ársfjórðungur í rekstri Eimskips frá árinu 2009. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, EBITDA, nam 9,6 milljónum evra og jókst um 66,5% samanborið við sama tímabil í fyrra. 

Annar ársfjórðungur er einnig talinn lofa góðu samanborið við síðasta ár og hefur afkomuspá fyrir árið 2016 verið hækkuð. Er hún nú á bilinu 49 til 53 milljónir evra í stað þess að vera á bilinu 46 til 50 milljónir evra eins og kynnt var í febrúar síðastliðnum.

Í nýbirtu árshlutauppgjöri kemur fram að rekstrartekjur fjórðungsins voru 113,3 milljónir evra og jukust um 0,5% en lækkandi verð í alþjóðlegri flutningsmiðlun dró úr tekjuvexti.

Félagið hefur ráðist í aðgerðir á undanförnum mánuðum og hefur breytt siglingakerfinu til að mæta betur erfiðum aðstæðum yfir vetrarmánuðina. Vegna hagræðingarverkefna og aukins kostnaðaraðhalds dróst rekstrarkostnaður að frátöldum launakostnaði saman á fjórðungnum.

Rekstrargjöld að meðtöldum launakostnaði lækkuðu um 3%, sem félagið bendir á í afkomutilkynningu að teljist góður árangur í ljósi mikilla kostnaðarhækkana vegna kjarasamninga á Íslandi.

Fyrirtækjakaupum ljúki á þriðja fjórðungi

Hagnaður tímabilsins nam 1,8 milljónum evra og jókst um 21,1% samanborið við fyrsta ársfjórðung 2015, þrátt fyrir 3,7 milljóna evra neikvæðan viðsnúning á gengismun.

Handbært fé frá rekstri nam 12,7 milljónum evra á fjórðungnum samanborið við 3,1 milljón evra á sama tímabili í fyrra og nam handbært fé 47,3 milljónum evra í lok mars.

Í afkomutilkynningu segir að Eimskip haldi áfram að meta möguleg fjárfestingartækifæri til vaxtar. Félagið nýti sér sterka fjárhagsstöðu sína nú þegar samþætting í greininni haldi áfram.

„Við erum komin langt í fyrirtækjakaupum erlendis og gerum ráð fyrir að þeim verði lokið á þriðja ársfjórðungi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK