Stærri vélar vegna þrengsla í Keflavík

Þrengsli við Keflavíkurflugvöll kalla á stærri vélar.
Þrengsli við Keflavíkurflugvöll kalla á stærri vélar.

Forsvarsmenn íslensku flugfélaganna eru sammála um að þrengslin við Flugstöð Leifs Eiríkssonar auki þörf fyrir breiðþotur sem rúma fleiri farþega. Umferðin við Keflavíkurflugvöll nær hámarki á morgnana, síðdegis og um miðnætti og eru lausir brottfarartímar á þessum vinsælu tímum uppbókaðir í sumum tilfellum.

Skúli Mogensen gagnrýndi áætlanir Icelandair í flugvélakaupum í samtali við Túrista í vikunni og sagðist ekki botna í því að félagið væri annars vegar að taka inn gamlar flugvélar og hins vegar að kaupa nýjar vélar með færri sætum en núverandi vélar. 

WOW air hefur aftur á móti verið að fjárfesta í stærri vélum.

Í samtali við Viðskiptamoggann í gær sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, að Icelanda­ir hafi horft til þess að vera með fleiri stærðir af vél­um. Það opni á fleiri tæki­færi til sókn­ar á aðra markaði.

Í svari við fyrirspurn Túrista í dag segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, hins vegar að samspil fjölgunar farþega og takmarkana á flugvöllum, þar á meðal Keflavíkurflugvelli, geri stærri þotur fýsilegri fyrir Icelandair í dag, en til að mynda fyrir fjórum árum, þegar félagið pantaði 24 nýjar en mun minni Boeing-þotur.

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vélar Icelandair með 20.000 lendingar að meðaltali

Í viðtalinu við Viðskiptamoggann sagði Björgólfur einnig að umræðan um aldur flugvéla Icelandair væri á villigötum. „Aldur og slit á flugvélum er mælt af flugtímum og lendingum. Við erum svo heppin hvað varðar leiðakerfi okkar að samsetningin í þessa veru er mjög góð. Lendingarnar eru hlutfallslega svo fáar að elstu 757-vélarnar eru aðeins hálfnaðar hvað líftíma varðar," sagði Björgólfur.

Í svari við fyrirspurn Túrista útskýrir Guðjón Arngrímsson þetta betur og segir að aldur flugvéla sé almennt miðaður við fjölda lendinga, af framleiðanda og Flugmálastjórn Bandaríkjanna, og varðandi Boeing 757 og 767 sé miðað við að líftími sé um 75 þúsund lendingar.

„Meðallendingafjöldi okkar véla er um 20 þúsund eða innan við þriðjungur af aldri. Svo er aldur stundum einnig miðaður við flugtíma og þá miðað við 150 þúsund flugtíma fyrir Boeing 757 og 767. Meðaltalið okkar er um 62 þúsund tímar," segir í svari Guðjóns við fyrirspurn Túrista.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK