Kemur illa við sjávarútveginn

Bretar hafa ákveðið að yfirgefa ESB.
Bretar hafa ákveðið að yfirgefa ESB. AFP

Bretland hefur lengi verið einn almikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir. Árið 2014 fóru sautján prósent íslenskra sjávarafurða til Bretlands en sem dæmi var næststærsti markaðurinn, Spánn, með einungis helminginn af þeirri upphæð eða átta prósent.

Í Hagsjá Landsbankans er fjallað um áhrif útgöngu Breta úr ESB og er þar meðal annars bent á að íslenskar sjávarafurðir hafi haft á sér ákveðinn gæðastimpil í Bretlandi og verið verðlagðar eftir því. Það sé því ekki ólíklegt að veiking pundsins gæti haft nokkur áhrif á spurn eftir íslenskum sjávarafurðum.

Í Hagsjánni er vísað til þess að engin breyting verði á stöðu Bretlands hvað varðar verslun og viðskipti innan Evrópska efnahagssvæðisins í það minnsta næstu tvö árin. Í framhaldi af því getur Ísland samið um áframhaldandi fríverslun við Bretland óháð því hvað gerist milli Evrópusambandsins og Bretlands. 

Lítil áhrif á efnahag bankanna

Líkt og Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri benti á í morgun er íslenska fjármálakerfið enn sem komið er tiltölulega einangrað fyrir áföllum á erlendum fjármálamörkuðum.

Samkvæmt mati Seðlabankans nemur brúttóstaða bankanna í sterlingspundum um sjö prósentum af eigin fé, en gjaldeyrisjöfnuður bankanna í pundum er lítillega jákvæður eða sem nemur 0,2 prósentum af eigin fé.

Landsbankinn bendir á að breyting á gengi pundsins hafi því lítil sem engin áhrif á efnahag innlendu viðskiptabankanna. Hvað varðar erlenda fjármögnun bankanna gæti órói á erlendum fjármálamörkuðum haft tímabundin neikvæð áhrif á fjármögnunarkostnað bankanna í erlendum myntum en bein áhrif af sveiflum á gengi sterlingspundsins eru þó afar lítil þar sem erlendar skuldabréfaútgáfur bankanna eru allar í öðrum gjaldmiðlum. 

AFP

Bein fjármunaeign í Bretlandi um 226 milljarðar

Bein fjármunaeign Íslendinga í Bretlandi nam 225,6 milljörðum króna í árslok 2014 samanborið við 215,1 milljarð króna í árslok 2013 og jókst því um 10,5 milljarða króna milli ára. Bein fjármunaeign Breta á Íslandi nam hins vegar aðeins um 19 milljörðum króna í árslok 2014 samanborið við um 6,3 milljarða í árslok 2013.

Veiking Sterlingspunds hefur því að öðru óbreyttu lítils háttar neikvæð áhrif á hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins.

Líkt og bent hefur verið á mun veiking pundsins hins vegar líklega hafa einhver áhrif á ferðalög Breta til annarra landa, þ.m.t. Íslands. Veikingin felur í sér skertan kaupmátt Breta á erlendri grundu og gæti því dregið úr getu og vilja Breta til ferðalaga út fyrir landsteinana. Á síðasta ári voru Bretar 19 prósent þeirra erlendu ferðamanna sem hingað komu. Það er sami fjöldi og kom frá Þýskalandi, Noregi, Frakklandi og Japan samanlagt svo dæmi sé tekið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK