Komast ekki fleiri í skúrinn

Einn starfsmaður er vanalega á vaktinni á Bæjarins bestu í …
Einn starfsmaður er vanalega á vaktinni á Bæjarins bestu í miðbænum. Á háannatíma eru hins vegar tveir starfsmenn í skúrnum. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er nákvæmlega ekkert að gera meðan á leik stendur en svo er rosalega mikið að gera þar á eftir,“ segir Guðrún Kristmundsdóttir, eigandi Bæjarins bestu, um reynsluna af fyrri leikjum Íslands á EM. „Þeir einu sem koma eru einhverjir útlendingar sem fylgjast ekki með fótbolta.“

Búast má við fjölmenni í bænum í kvöld þar sem leikurinn verður í beinni útsendingu á risaskjá á Arnarhóli auk þess sem hann er sýndur á börum og veitingastöðum víða um bæ. Leikirnir hafa hingað til verið sýndir á Ingólfstorgi og hefur þá myndast hálfgerð þjóðhátíðarstemning í bænum.

Guðrún skellir ekki í lás meðan á leiknum stendur líkt og sumir fyrirtækjaeigendur en bendir á að sjónvarp sé í pylsuskúrnum við Kolaportið og að starfsfólkið geti þannig fylgst með viðureigninni. „Ég er ekki alvond,“ segir Guðrún og hlær.

Guðrún býst við miklum fjölda viðskiptavina að leik loknum en segist þó ekki geta undirbúið sig neitt sérstaklega fyrir það sökum stærðartakmarkana. „Það verða tveir á vaktinni. Það komast ekki fleiri fyrir í skúrnum,“ segir hún létt í bragði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK