Mikill áhugi á að kaupa Unister

Thomas Wagner, stofnandi Unister.
Thomas Wagner, stofnandi Unister. Ljósmynd/Unister

Skiptastjóri þrotabús þýska ferðafyrirtækisins Unister hefur ráðið fjárfestingarbankann Macquarie til þess að finna kaupanda að vinsælum vefsíðum fyrirtækisins.

Skiptastjórinn, Lucas Flöther, segist finna fyrir „gríðarlegri spurn“ á meðal fjárfesta eftir vefsíðunum, sér í lagi þeim vinsælustu, fluege.de og ab-in-den-urlaub.de.

Eins og kunnugt er lét stofnandi fyrirtækisins, Thomas Wagner, lífið í flugslysi í Slóveníu fyrr í mánuðinum. Aðeins fjórum dögum síðar lýsti fyrirtækið sig gjaldþrota. Skjalataska full af peningum, milljónum evra, fannst í flugvélinni.

Fyrirtæki á borð við þýsku sjónvarpsstöðina ProSieben og fjárfestingafélagið EQT hafa áður lýst yfir áhuga á að kaupa Unister, síðast vorið 2015. Viðræðurnar runnu aftur á móti út í sandinn, en fyrirtækin og forsvarsmenn Unister höfðu ólíkar verðhugmyndir í huga.

Frétt mbl.is: Fundu skjalatösku fulla af evrum

Wagner hafði vonast til þess að fá um 900 milljónir evra, sem jafngildir um 120 milljörðum íslenskra króna, fyrir söluna á fyrirtækinu. Þýskir fjölmiðlar hafa á hinn bóginn gefið í skyn að verðmæti fyrirtækisins sé nú aðeins um 100 milljónir evra.

Flöther segir í samtali við Reuters að gjaldþrotaskiptameðferðin, sem og mikil og neikvæð fjölmiðlaumfjöllun í kjölfar flugslyssins, hafi haft slæm áhrif á rekstur Unisters.

„En okkur hefur tekist að koma sölunni í jafnvægi þrátt fyrir fyrirsagnirnar. Bókunartölur eru farnar að hækka,“ sagði hann, en fyrirtækið selur meðal annars flugferðir og hótelgistingu á vefsíðum sínum.

„Það er engin brunaútsala í gangi,“ bætti hann við.

Wagner var á leið frá Feneyjum þegar einkaflugvélin hans hrapaði. Þar fundaði hann með ítölskum fjárfestum og reyndi að fá þá til þess að lána fyrirtækinu fé. Fjárhagsstaða fyrirtækisins hefur verið afar bág að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK