Sunna, Helga og Lára til RÚV

Ríkisútvarpið.
Ríkisútvarpið. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þrjár konur hafa verið ráðnar í stjórnendastöður hjá RÚV, þær Sunna Valgerðardóttir í stöðu svæðisstjóra RÚVAK, Þóra Margrét Pálsdóttir í stöðu mannauðsstjóra RÚV og Helga Lára Þorsteinsdóttir í stöðu safnastjóra RÚV.

Frá þessu greinir í fréttatilkynningu frá RÚV þar sem fram kemur að allar séu stöðurnar afar mikilvægar.

Lýsingu RÚV á stöðunum og upplýsingar um menntun og fyrri störf nýju starfsmannanna má sjá hér að neðan.

Sunna Valgerðardóttir hefur verið ráðin svæðisstjóri RÚVAK.

Svæðisstjóri verkstýrir og ber ábyrgð á fréttaflutningi af landsbyggðinni í útvarpi, sjónvarpi og á vefnum en RÚV er með fréttamenn og fréttaritara í öllum landshlutum. RÚV ætlar að halda áfram að efla starfsemi sína á landsbyggðinni, þróun og uppbyggingu til framtíðar en Sunna mun leiða þessa vinnu. Svæðisstjóri stýrir starfsemi RÚV á Akureyri sem og annarri starfsemi á landsbyggðinni.

Sunna Valgerðardóttir.
Sunna Valgerðardóttir. Ljósmynd/ RÚV

Sunna hefur starfað sem blaðamaður á Kjarnanum undanfarið ár, sinnt þar frétta- og ritstjórnarstörfum samhliða fréttaskrifum. Hún var samskiptasérfræðingur og upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur árin 2015-2016, vann sem fréttamaður á fréttastofu RÚV á árunum 2013-2015 og sem blaðamaður á fréttadeild Fréttablaðsins árin 2009-2013. Hún er með BA-gráðu í nútíma- og fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri og diplómu í margmiðlunarhönnun frá Odense Techniske Skole. Sunna hlaut Blaðamannaverðlaun BÍ árið 2013 fyrir umjöllun ársins.

Þóra Margrét Pálsdóttir hefur verið ráðin mannauðsstjóri RÚV.

Hlutverk mannauðsstjóra er að móta og vinna eftir mannauðsstefnu sem endurspeglar gildi Ríkisútvarpsins og er í samræmi við stefnu, markmið og áætlanir RÚV, jafnt faglega sem fjárhagslega. Hann veitir starfsfólki ráðgjöf og stuðning, stýrir fjölbreyttum verkefnum þvert á fyrirtækið, tryggir að helstu ferlum í mannauðsmálum sé faglega sinnt og annast greiningar, árangursmælingar og gagnagrunna sem snúa að mannauðsmálum. RÚV er framsækinn vinnustaður þar sem sjónarmið fagmennsku, fjölbreytileika og jafnréttis eru höfð að leiðarljósi.

Þóra Margrét Pálsdóttir.
Þóra Margrét Pálsdóttir. Ljósmynd/ RÚV

Þóra Margrét hefur starfað sem mannauðsstjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands frá 2009 og hefur verið hópstjóri mannauðs- og samskiptamála sviðsins frá 2013. Áður vann hún sjálfstætt við ráðgjöf um mannauðsmál og vinnusálfræði, auk ýmissa verkefna bæði hér á landi og í Berlín þar sem hún bjó lengi. Einnig starfaði hún á starfsmannasviði Háskóla Íslands árin 2003-2006.

Þóra Margrét stundaði bæði grunn- og framhaldsnám í sálfræði í Berlín í Þýskalandi og lauk meistaranámi í sálfræði með áherslu á vinnu- og skipulagssálfræði árið 2002. Einnig lagði hún stund á viðbótarnám í coaching við Deutsche Psychologen Akademie í Berlín 2005-2006. Þóra Margrét tekur við af Andreu Róbertsdóttur sem starfað hefur sem mannauðsstjóri í miklu breytingaferli sem átt hefur sér stað síðustu tvö og hálft ár hjá RÚV.

Helga Lára Þorsteinsóttir hefur verið ráðin safnastjóri RÚV.

Hlutverk safnadeildar er að safna, varðveita og miðla dagskrárefni Ríkisútvarpsins og styðja við starfsemina með fjölbreyttum safnkosti og skjalastjórnun. Safnastjóri vinnur samkvæmt vinnureglum RÚV og alþjóðlegum reglum og stöðlum og markar safninu stefnu til náinnar framtíðar í samvinnu við skrifstofustjóra. Verkefni safnsins eru í stöðugri mótun og takast á við samtímann hverju sinni, um leið og byggt er á því 85 ára starfi sem unnið hefur verið.

Helga Lára Þorsteinsdóttir.
Helga Lára Þorsteinsdóttir. Ljósmynd/ RÚV

Helga Lára hefur lengst af unnið hjá Listasafni Reykjavíkur eða frá árinu 2002 og gegnt stöðu deildarstjóra safnadeildar Listasafnsins frá árinu 2008. Samhliða því hefur hún haldið fyrirlestra og kynningar á starfi og verkum safnadeildar Listasafns Reykjavíkur við HÍ og LÍ og var stundakennari í safnafræði við Félagsvísindadeild HÍ árin 2007-2009. Áður vann hún á Minjasafni Reykjavíkur og Samtímasafninu í Helsinki, Kiasma. Hún er stofnfélagi og núverandi formaður Félags íslenskra safnafræðinga og situr í stjórn Íslandsdeildar ICOM – International Council of Museums sem starfar undir UNESCO.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK