Spáir óbreyttum stýrivöxtum

Greiningardeildin telur litlar líkur vera á vaxtalækkun þrátt fyrir að …
Greiningardeildin telur litlar líkur vera á vaxtalækkun þrátt fyrir að færa megi sannfærandi rök fyrir því að peningastefnan sé of aðhaldssöm. mbl.is/Hjörtur

Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir því að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að halda stýrivöxtum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar en tilkynnt verður um vaxtaákvörðunina í næstu viku.

Í Hagsjá greiningardeildarinnar segir að verðbólguþróunin hafi verið óvenjuhagstæð að undanförnu og að undanskildu stuttu tímabili í kringum síðustu áramót þarf að leita allt aftur til október 1998 til að finna lægri verðbólgu á 12 mánaða grundvelli. Er þessi lága verðbólga að undanförnu sögð skýrast að miklu leyti af gengisstyrkingu krónunnar auk þess sem verðbólga á alþjóðavettvangi hefur verið óvenjulág um alllangt skeið. Verðbólga var 1,1% í júlí síðastliðnum og mældist 0,6% verðhjöðnun á verðlagi sé horft fram hjá húsnæðisverði. Gengi krónunnar hefur styrkst umtalsvert frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar. Gengi evru hefur farið úr 139 kr. niður í 132 kr. og gengisvísitalan úr 188 niður í 177 stig.

Ekki reynst sannspár um verðbólguþróun

„Þar sem Seðlabankinn gerir yfirleitt ráð fyrir óbreyttu gengi í spám sínum ætti styrking krónunnar að verða til þess að færa verðbólguspá Seðlabankans niður á við að þessu sinni,“ segir í Hagsjá. „Seðlabankinn hefur ekki reynst sannspár um verðbólguþróun síðustu missera. Hann hefur því ítrekað fært væntan verðbólgukúf fram í tímann. Við búumst frekar við því að Seðlabankinn uppfæri spá sína um hagvöxt upp á við en niður á við en í maí spáði bankinn 4,5% hagvexti á þessu ári en spá okkar frá því í vor gerir ráð fyrir 5,4% hagvexti á árinu. Seðlabankinn hefur einnig á síðustu árum ítrekað hækkað spá sína um vöxt útflutnings á yfirstandandi ári við uppfærslu á þjóðhagsspá sinni og reikna má með því að svo verði einnig að þessu sinni.“

Þá telur greiningardeildin litlar líkur vera á vaxtalækkun þrátt fyrir að færa megi sannfærandi rök fyrir því að peningastefnan sé of aðhaldssöm um þessar mundir eins og endurspeglast í háum raunstýrivöxtum. „Tónn peningastefnunefndarinnar hefur verið í harðari kantinum og rauði þráðurinn að aðeins sé tímaspursmál hvenær vextir verði hækkaðir frekar,“ segir í Hagsjá.

Kunni að hafa vanmetið framleiðslugetu þjóðarbúsins

Bent er á að Seðlabankinn sé í yfirlýstu vaxtahækkunarferli í samræmi við vaxandi framleiðsluspennu. Segir í Hagsjá að rétt mat á framleiðsluspennunni sé hins vegar afar vandasamt og lág verðbólga undanfarin tvö ár bendir til þess að Seðlabankinn kunni að hafa vanmetið framleiðslugetu þjóðarbúsins.

Segir jafnframt að vaxtalækkun nú kæmi þvert á fyrri yfirlýsingar peningastefnunefndar bankans og því er líklegt að nefndin myndi undirbúa þannig ákvörðun fyrst með mildari tóni í yfirlýsingum sínum ef slík ákvörðun væri á döfinni. Þá verður vaxtahækkun einnig að teljast mjög ólíkleg í ljósi þess hversu lág verðbólgan mælist um þessar mundir á nánast alla mælikvarða. „Enn fremur væri óheppilegt að auka frekar vaxtamun við útlönd við núverandi aðstæður því það gæti ýtt enn frekar undir vaxtamunarviðskipti erlendra fjárfesta,“ segir í Hagsjá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK