Sjónvarpið tekur tekjur frá dagblöðum

Hugi Sævarsson framkvæmdastjóri Britingahúsins.
Hugi Sævarsson framkvæmdastjóri Britingahúsins. Ernir Eyjólfsson

Auglýsingar í sjónvarpi hafa sótt mikið á hér á landi á þessu ári, en helstu ástæður þess eru þátttaka Íslands á EM í knattspyrnu karla og íslensk dagskrárgerð sem hefur verið að eflast. Á sama tíma eru dagblöð áfram að missa hlutfall á auglýsingamarkaði. Þetta segir Hugi Sævarsson, framkvæmdastjóri Birtingahússins, í samtali við mbl.is.

Hugi skrifaði pistil í dag sem hann birti á vefsíðu fyrirtækisins þar sem hann tók saman hvernig skipting fjármagns sem fer í auglýsingar væri háttað hjá fyrirtækinu á fyrstu sex mánuðum ársins. Fyrirtækið er með um eins milljarðs veltu á auglýsingamarkaði, en samkvæmt upplýsingum fjölmiðlanefndar var heildarveltan sem fór í gegnum birtingarhúsin um 4,3 milljarðar árið 2014 og segir Hugi að líklega sé sú upphæð nú nær 5 milljörðum.

Samkvæmt tölum Birtingarhússins voru auglýsingar í sjónvarpi stærsti hluti kökunnar á fyrri hluta ársins með 38% hlutdeild. Yfir allt árið í fyrra var hlutdeildin um 30% að sögn Huga. Þar á eftir komu dagblöð með 22% hlutdeild í ár en það nam 27% í fyrra. Til viðbótar koma tímarit og héraðsfréttablöð með 1-2% hvort bæði árin.

Netið er að sögn Huga á svipuðum stað milli ára þó það mælist aðeins lægra í ár, eða með 19% á móti 20% í fyrra. Segir hann þetta þó ekki segja alla söguna því samhliða netauglýsingum fylgi talsverð ráðgjafar- og greiningarvinna sem sé hlutfallslega meiri en í kringum auglýsingar á öðrum miðlum.

Skipting fjármuna eftir auglýsingamiðlum hjá Birtingahúsinu á fyrstu sex mánuðum …
Skipting fjármuna eftir auglýsingamiðlum hjá Birtingahúsinu á fyrstu sex mánuðum ársins. graf/Birtingarhúsið

Af stóru póstunum í auglýsingageiranum kemur svo útvarpið í fjórða sæti með 15% hlutdeild í ár á móti 17% í fyrra að sögn Huga.

Spurður um ástæður þessara hreyfinga segir Hugi stærstu skýringuna vera þátttöku Íslands í EM og miklar vinsældir í kringum mótið. Sjónvarpið hafi þar náð að draga að sér miklar auglýsingatekjur enda áhugi fólks mikill á mótinu. Þá hafi íslensk dagskrárgerð einnig eflst undanfarið og nefndir hann þættina Ófærð og Ligeglad í Sjónvarpinu, Biggest Loser á SkjáEinum og Ísland got talent á Stöð 2. Þá hafi fréttir og fréttaskýringar í kringum forsetakosningar og Wintris-málið aukið á vinsældir sjónvarpsins. „Peningarnir elta árangur,“ segir Hugi.

Hann segir að til framtíðar litið telji hann mikla vaxtarmöguleika liggja í netinu og að líklega muni auglýsingahlutur netsins stækka á komandi árum. Þá sé einnig spurning hvenær sjónvarp verði að netinu í þessu samhengi og bendir hann á að landamærin séu ekki jafn skýr og áður þar sem fólk horfi oft á sjónvarp í gegnum tölvur í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK