Hagnaður Eimskipa jókst um 58,7%

Þetta er besti árangur sem náðst hefur á öðrum ársfjórðungi …
Þetta er besti árangur sem náðst hefur á öðrum ársfjórðungi í rekstri félagsins frá árinu 2009 hvað varðar EBITDA, EBIT, hagnað og handbært fé frá rekstri.

Hagnaður Eimskipa á öðrum ársfjórðungi ársins nam 8,8 milljónum evra, eða jafnvirði 1.161 milljónar íslenskra króna, samanborið við 5,5 milljónir evra fyrir ári. Jókst hagnaðurinn um 58,7%.

Þá námu rekstrartekjur fyrirtækisins 126,1 milljón evra og drógust þær saman um 0,4% milli ára.

Besti árangur á öðrum ársfjórðungi frá 2009

Flutt magn í áætlunarsiglingum jókst um 9,1% og tekjur hækkuðu um 4,9 milljónir evra. Flutningsmagn í flutningsmiðlun dróst saman um 1,2% og tekjur lækkuðu um 5,4 milljónir evra vegna áhrifa af lækkandi verðum í alþjóðlegri flutningsmiðlun. EBITDA nam 16,2 milljónum evra samanborið við 13,3 milljónir evra og jókst um 21,6%. Eiginfjárhlutfall var 62,0% og nettóskuldir námu 31,4 milljónum evra í lok júní.

Þetta er besti árangur sem náðst hefur á öðrum ársfjórðungi í rekstri félagsins frá árinu 2009 hvað varðar EBITDA, EBIT, hagnað og handbært fé frá rekstri.

Í tilkynningu frá Eimskip kemur fram að afkomuspá ársins 2016 sé óbreytt, eða EBITDA á bilinu 49 til 53 milljónir evra.

Tekjur af flutningsmiðlun drógust saman

Að sögn Gylfa Sigfússonar, forstjóra Eimskipa, var góður vöxtur í flutningum tengdum Íslandi og Noregi, en samdráttur var í Færeyjum. Tekjur af flutningsmiðlun drógust saman um 5,4 milljónir evra vegna áhrifa af lækkandi verðum í alþjóðlegri flutningsmiðlun. Magn í flutningsmiðlun dróst saman um 1,2% samanborið við sama tímabil í fyrra. Stafar breytingin einkum af samdrætti í frystiflutningsmiðlun frá Kína, en aðrir markaðir hafa verið í vexti.

Þá dróst rekstarkostnaður að meðtöldum launakostnaði saman um 3% vegna breytinga á siglingakerfi, hagræðingarverkefna, aukins kostnaðaraðhalds og lækkandi verðs í alþjóðlegri flutningsmiðlun. Að sögn Gylfa er það góður árangur í ljósi mikilla kostnaðarhækkana vegna kjarasamninga á Íslandi.

Munu ekki auka hlutafé

„Eimskip og grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line undirrituðu í maí viljayfirlýsingu um að tengja Grænland við alþjóðlegt siglingakerfi Eimskips. Félögin hafa frá þeim tíma unnið að því að móta og meta mögulegt samstarf um fjárfestingu í gámaskipum og samtengingu siglingakerfa. Verkefnið gengur samkvæmt áætlun og gerum við ráð fyrir að ákvörðun liggi fyrir fljótlega,“ er haft eftir Gylfa í tilkynningu.

„Frá því í maí hefur undirbúningur fjárfestingarverkefna gengið vel og Eimskip stefnir að því að ljúka á þriðja og fjórða ársfjórðungi kaupum á nokkrum fyrirtækjum í Evrópu sem falla undir okkar kjarnastarfsemi. Félagið er nú í samstarfi við alþjóðleg lögfræði- og endurskoðunarfyrirtæki til að ljúka áreiðanleikakönnunum.

Eins og áður hefur komið fram er það áfram markmið okkar að vaxa, bæði með innri vexti og með kaupum á  fyrirtækjum sem falla að starfsemi félagsins og auka virði þess. Við munum halda áfram á sömu braut í að vinna að fjárfestingum í fyrirtækjum og skipum. Við munum ekki auka hlutafé til að ljúka mögulegum fjárfestingum en munum hins vegar nota handbært fé og auka lántökur til að koma skuldsetningu fyrirtækisins í eðlilegra horf, þó þannig að efnahagsreikningur félagsins verði áfram sterkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK