Falleg útópía en erfið í framkvæmd

Gæti það virkað að hafa eitt virðisaukaskattsþrep?
Gæti það virkað að hafa eitt virðisaukaskattsþrep? mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skiptar skoðanir eru uppi meðal fulltrúa stærstu stjórnmálaflokkanna um tillögur verkefnisstjórnar um breyt­ing­ar og um­bæt­ur á skatt­kerf­inu um breytingu á virðisaukaskattskerfinu. Í til­lög­un­um er lagt til að 0 þrepið sé minnkað og að hin tvö, þ.e. 11% þrepið og 24% þrepið verði sam­einaði í eitt tæp­lega 19% þrep.

Fyrri frétt mbl.is: Einfalt, gagnsætt og skilvirkt

Hluti tillagna verkefnisstjórnarinnar voru kynntar á morgunverðarfundi á vegum Félags viðskiptafræðinga- og hagfræðinga á Grand hóteli í morgun.

Fulltrúar þeirra sex stjórnmálaflokka sem sæti hafa á Alþingi eða mælast yfir 5% í skoðanakönnunum tóku þátt í pallborðsumræðum eftir kynninguna um sýn þeirra á skattkerfið og mögulegar breytingar eftir kosningar.

Voru fulltrúarnir beðnir um að greina frá því hvaða tillögur þeim leist best á og hvort það væri einhverjar sem þeim hungaðist ekki.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins sagði að ekki mörg lönd í kringum okkur hafi farið þá leið að hafa aðeins eitt virðisaukaskattþrep og sagði að með því gætist myndast pressa á að setja sem flest í 0 þrepið og það að finna nýjar undanþágur yrði endalaust. Sagði hann hugmyndina fallega útópíu í hagfræði sem yrði þó pólitískt mjög erfið í framkvæmd.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tók í sama streng og sagði það geta orðið mjög flókið að koma virðisauksskattskerfinu í eitt þrep og sagðist þekkja það mjög vel sjálfur. Þá sagði hann að mögulega gæti verið sóknarfæri í því að horfa á breytingar á virðisaukaskattinum sem skattalækkun en ekki aðeins kerfisbreytingu og að þá yrðu eflaust fleiri sem myndu styðja hugmyndina.

Þá sagði Smári McCarthy, oddviti Pírata í Suðurkjördæmi, að engin trygging væri fyrir því að breytingar á virðisaukaskattkerfinu myndu skila sér til neytenda.

Stefnt er að því að gera skattkerfið einfaldara og skilvirkara
Stefnt er að því að gera skattkerfið einfaldara og skilvirkara mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Myndi breyta miklu fyrir efnaminna fólk

Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinar, sagðist vera hrifin af hugmyndinni um eitt þrep en sagði helsta vandamálið það að þá færi matur úr 11% þrepinu í tæplega 19%. Myndi það breyta miklu fyrir fólk sem á ekki mikla peninga. Þá þyrfti að skoða áhrif breytinganna á vísitölu neysluverðs, lán landsmanna og kjörin almennt.

Óttarr Proppé, formaður Bjartar framtíðar sagðist í grundvallaratriðum sammála hugmyndum um eitt virðisaukaskattsþrep þar sem það myndi einfalda lífið fyrir alla, bæði í innheimtu og fyrir þá sem þurfa að fara eftir því. Sagði hann þó mikilvægt að fara hægt inn í stórar breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Þá væri 0 þrepið mjög mikilvægt og sagði Óttarr að það mætti ekki vera duttlungum háð eða eftir smekk fárra hvað væri í 0 þrepi og hvað ekki.

„Win-win fyrir alla“

Við pallborðsumræðurnar í dag sagðist Bjarna lítast vel á flestar tillögur verkefnisstjórnarinnar, þá sérstaklega varðandi tekjur einstkalinga og  alla einföldun með eftirliti og skattaframkvæmdinni. „Mér líkar vel við hugmyndir sem eru „win-win“ fyrir alla,“ sagði ráðherrann.

Smári var sammála Bjarna og sagði margt gott í tillögum hóspins og nefndi þar sérstaklega hugmyndir um breytt fyrirkomulag á vaxtabætum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði að sér litist vel á tillögurnar sem snúa einfaldari skattskilum og hagkvæmara eftirliti, þá sérstaklega tillögum þess efnis að atvinnurekendum með veltu sem er minni en þrjár miljónir falli und­ir sérá­kvæði, og skili ekki virðis­auka­skatti eða laun­greiðenda­skrá. Sagði Katrín það skipta verulegu máli fyrir einstaklinga. Þá fagnaði hún þeirri hugmyndafræði að lagðir verði umhverfisskattar og að „við borgum fyrir skaða á umhverfinu“. Sagði Katrín það fullkomlega í takt við stefnu hennar flokks.

Hinsvegar sagðist hún ekki sannfærð um hugmyndir stjórnarinnar um breytingar á fjármagnstekjuskattinum og sagði að þær þyrfti að ræða betur.

Geta allar einfaldað kerfið

Oddnýju sagðist líta vel á þá hugmynd að gistináttagjald myndi renna til sveitarfélagana og að þá útfærslu þyrfti skoða betur.

Þorsteinn Víglundsson,  sem leiðir lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður sagði að sér litist mjög vel á tillögurnar í grunninn og sagði þær allar skila því að einfalda kerfið.

Sagði hann sinn flokk hrifin af hugmyndum hóspins varðandi tekjuskattskerfið og að hann liti á þær sem hlutlausta aðgerð til að gera kerfið einfaldara og skilvirkara. Þá var hann ánægður með hugmynd hópsins um græna skatta en sagði mikilvægt að gæta þess að sjávarútvegurinn fái svipað kerfi og orkufyrirtækin og ferðaþjónustan búa við þar sem lögð er áhersla á langtíma fyrirsjáanleika, stöðugleika og arðsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK