Lögum um gjaldeyrismál breytt

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lög um breytingar á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, taka gildi í dag. Þau miða að losun fjármagnshafta á heimili og fyrirtæki.

Þær meginbreytingar sem gerðar eru á lögunum fela í sér auknar heimildir til fjármagnshreyfinga á milli landa og gjaldeyrisviðskipta, svo og afnám tiltekinna takmarkana sem gilt hafa um fjármagnshreyfingar á milli landa og gjaldeyrisviðskipti, að því er kemur fram í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.

Hluti þeirra breytinga sem samþykktar voru taka gildi strax, en aðrar taka gildi 1. janúar 2017. Seðlabanka Íslands ber jafnframt að endurskoða fjárhæðarmörk heimilda, sem gilda um tilteknar fjármagnshreyfingar á milli landa í erlendum gjaldeyri og gjaldeyrisviðskipti, í reglum bankans fyrir 1. júlí 2017.

Breytingarnar eru liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem kynnt var 8. júní 2015. Með þeim eru stigin veigamikil skref í átt að fullri losun fjármagnshafta.

Helstu breytingar á lögum um gjaldeyrismál, sem taka gildi strax, eru eftirfarandi:

  • Bein erlend fjárfesting er ótakmörkuð en háð staðfestingu Seðlabanka Íslands.
  • Fjárfesting í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðsla erlendra lána er heimil fyrir jafnvirði allt að 30.000.000 kr., að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
  • Einstaklingum er heimilt að kaupa eina fasteign erlendis á almanaksári, óháð tilefni og kaupverði.
  • Heimild til kaupa á erlendum gjaldeyri vegna ferðalaga erlendis hækkar úr 350.000 kr. á mánuði í 700.000 kr.; nú vegna hverrar ferðar.
  • Skilaskylda erlends gjaldeyris vegna lántöku einstaklinga hjá erlendum aðilum til kaupa á fasteign, farartæki eða vegna fjárfestinga erlendis er afnumin.
  • Ýmsar sértækar takmarkanir eru afnumdar eða rýmkaðar, m.a. heimildir einstaklinga til kaupa á ferðagjaldeyri, greiðslu skatta og kaupa á farartækjum.
  • Heimildir Seðlabanka Íslands til upplýsingaöflunar á grundvelli hlutverka hans sem seðlabanka eru rýmkaðar í því skyni hann geti aflað upplýsinga sem auðvelda bankanum að stuðla að verðlags- og fjármálastöðugleika eftir að fjármagnshöft hafa verið losuð.

Helstu breytingar á lögum um gjaldeyrismál, sem taka gildi hinn 1. janúar 2017, eru eftirfarandi:

  • Fjárhæðarmörk hækkuð í 100.000.000 kr. vegna fjárfestingar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðslu lána í erlendum gjaldeyri.
  • Innstæðuflutningur heimilaður innan framangreindra fjárhæðarmarka. Skilyrði um innlenda vörsluaðila erlendrar verðbréfafjárfestingar fellur niður og vörsluflutningur verðbréfa heimill. Þar með munu innlendir og erlendir aðilar geta flutt innstæður og verðbréf til og frá landinu og átt viðskipti með verðbréf erlendis innan þeirra marka sem lögin setja þeim.
  • Heimildir einstaklinga til kaupa á og úttekta á erlendum gjaldeyri í reiðufé rýmkaðar verulega þannig að einstaklingum verður heimilt að kaupa eða taka út erlendan gjaldeyri í reiðufé innan framangreindra fjárhæðarmarka.

Samhliða breytingum á lögum um gjaldeyrismál hafa reglur um gjaldeyrismál einnig verið uppfærðar, sbr. reglur nr. 826/2016, um gjaldeyrismál, samkvæmt tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK