Aukin útgjöld til samgöngumála og húsnæðis

M.a. stendur til að hefja framkvæmdir við Hús íslenskra fræða.
M.a. stendur til að hefja framkvæmdir við Hús íslenskra fræða. mbl.is/Árni Sæberg

Áætlað er að fjármunamyndun hins opinbera á árinu aukist um 2,7% sem er meira en gert var ráð fyrir í maíspá. Búist er við að fjárfesting í rannsóknum og þróun verði nokkru meiri en í maíspá vegna hærri launaútgjalda hjá A-hluta ríkissjóðs. Þessu til viðbótar bendir greiðsluuppgjör ríkissjóðs ásamt fjáraukalögum 2016 til að útgjöld til vegagerðar verði hærri en áður var gert ráð fyrir.

Þetta kemur fram í Hagspá Hagstofu Íslands.

Þar segir að reiknað sé með því að ríkissjóður fullnýti fyrirliggjandi fjárheimildir til jarðgangagerðar á Bakka og við Norðfjörð. Þar sem halli á rekstri sveitarfélaga nam um 3 milljörðum á fyrri hluta ársins er áfram gert ráð fyrir að fjárfestingar þeirra dragist saman að raunvirði. Gangi spáin eftir verður hlutur opinberrar fjármunamyndunar um 2,9% af vergri landsframleiðslu árið 2016 og þar af er ríkissjóður með um 1,9% en sveitarfélög um 1,0%.

Þá er á næsta ári gert ráð fyrir að fjárfestingar ríkissjóðs taki mið af hækkun stofnkostnaðar vegna nýrrar ályktunar Alþingis um fjögurra ára samgönguáætlun 2015-2018. Er þar átt við jarðgangagerð við Dýrafjörð, Norðfjörð og smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju. Auk þess er gert ráð fyrir að bygging hjúkrunarheimila, Húss íslenskra fræða, skrifstofuhúsnæðis Alþingis og Stjórnarráðsins hefjist. Aftur á móti er talið að sveitarfélög gæti aðhalds í rekstri samhliða því að uppfylla jafnvægis- og skuldaákvæði fjármálareglna sveitarstjórnarlaga. Áætlað er að vöxtur fjárfestingar hins opinbera verði um 3,7% árið 2017 og að hún verði sem hlutfall af vergri landsframleiðslu tæplega 2,9%.

Talið er að vöxturinn verði ríflega 4,5% að meðaltali árin 2018 til 2020 þegar framkvæmdir við meðferðakjarna nýs Landspítala hefjast. Auk þess er horft til áætlaðra fjárheimilda samgönguáætlunar um jarðgangagerð og smíði Vestmannaeyjaferju. Gert er ráð fyrir kaupum á nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna og að fyrrgreindar húsbyggingaframkvæmdir standi yfir en þeim ljúki árið 2021. Síðustu tvö ár spátímans verður vöxtur fjármunamyndunar að meðaltali 2,4% og fjárfestingarstig um 3,0% af vergri landsframleiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK