Vestasti hluti Kársness breytir um svip

Tillaga að nýju hafnarsvæði við Kársnes.
Tillaga að nýju hafnarsvæði við Kársnes.

Blönduð byggð íbúða og atvinnuhúsnæðis, vistvænar samgöngur, verslun og þjónusta verða áhersluatriði í uppbyggingu vestasta hluta Kársness. Samhliða uppbyggingu verður reist brú fyrir gangandi, hjólandi og almenningsvagna yfir Fossvog sem tengja mun svæðið við háskólasvæði Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands og miðbæ Reykjavíkur.

Skipulagslýsing svæðisins og brúar yfir Fossvog er nú í kynningu hjá Kópavogsbæ, að því er segir í tilkynningu frá bænum. Gert er ráð fyrir að uppbygging svæðisins taki á bilinu 10-20 ár.

Þá segir, að útivistarmöguleikar svæðisins muni njóta sín í framtíðarskipulagi svæðisins, áhersla verði lögð á opin svæði, greiðfæra hjólastíga og gott aðgengi að strandlengjunni. Þá sé sérstaklega hugað að góðri tengingu við eldri byggð á Kársnesi sem sé eitt rótgrónasta hverfið í Kópavogi. Þegar hefur verið samþykkt skipulag tveggja reita fyrir fjölbýlishús með um 250 íbúðum og munu framkvæmdir við þær hefjast á næsta ári. Að auki er gert ráð fyrir 550 íbúðum á þróunarsvæðinu.

Jafnframt segir, að íbúðir verði um 60% af húsnæði á þróunarsvæðinu og atvinnuhúsnæði 40%. Gert sé ráð fyrir atvinnustarfsemi á jarðhæð nokkurra fjölbýlishúsa, margvíslegri atvinnustarfsemi og ferðatengdri þjónustu.

Hér má sjá hugmynd að því hvernig brú gæti legið …
Hér má sjá hugmynd að því hvernig brú gæti legið yfir Fossvog að Kársnesi.

„Kársnesið er eitt mest spennandi svæði á höfuðborgarsvæðinu, það hefur allt, náttúrufegurð, uppbyggingarmöguleika og með brúnni yfir Fossvog batnar tenging hverfisins til mikilla muna,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, í tilkynningunni.

„Við leggjum mikinn metnað í gerð skipulags þróunarsvæðis á Kársnesi. Nýtum hugmyndir úr samkeppninni Spot on Kársnes sem Kársnesið var hluti af, vinnum skipulagið í tengslum við framsýna samgönguáætlun, viljum fjölbýlishús sem eru í takt við tímann og fjölbreytta atvinnustarfsemi,“ er haft eftir Theodóru S. Þorsteinsdóttur, formanni skipulagsráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK