Fleiri sem vilja hugsa vel um skeggið

Högni segir viðtökurnar við versluninni hafa farið fram úr öllum …
Högni segir viðtökurnar við versluninni hafa farið fram úr öllum væntingum. mbl.is/Árni Sæberg

Skegg er í tísku og hefur verið það lengi. Hins vegar er það að aukast að karlmenn hugsi vel um skeggið sitt og þar kemur netverslunin Skeggjaður.is sterk inn. Skeggjaður.is sérhæfir sig í sölu á skeggumhirðuvörum í hæsta gæðaflokki en verslunin opnaði í apríl á þessu ári.

„Við seljum aðallega skeggvörur, allt frá olíu, vaxi og sjampói, yfir í bursta, skæri og greiður og svo leynast hjá okkur einstaka hármótunarvörur,“ segir Högni Guðjóns Elíasson, annar eigandi verslunarinnar í samtali við mbl.is.

Högni stofnaði verslunina ásamt sambýliskonu sinni, Katrínu Ósk Jóhannsdóttur. Þau búa í Hafnarfirði ásamt börnum sínum þremur, 8, 4, og 2 ára. Högni og Katrín sinna versluninni í frítíma sínum en þau eru bæði í fullri vinnu. Högni starfar í framleiðslu Te og kaffi sem brennslumeistari og Katrín er sölufulltrúi hjá Esju.

Sáu ný tækifæri heima

Að sögn Högna kom hugmyndin að versluninni upp í Noregi. „Við fluttum út í leit að nýjum tækifærum. Þar var ég svikinn um vinnu sem ég hafði fengið og á þeim tíma var olíuverð að falla og tugir þúsunda að missa vinnuna. Það gerði okkur mjög erfitt fyrir,“ segir Högni.  „Sjálfsbjargarviðleitnin tók völd og ákváðum við að útbúa okkar eigin skeggvörulínu sem reyndar fór svo á bið því við ákváðum að flytja aftur heim til Íslands í örugga vinnu. Við sáum ný tækifæri hér heima, þar sem lítið var um skeggvörur á íslandi. Við opnuðum þessa verslun með vörumerkjum sem við sérvöldum með gæði í huga. Enn er okkar eigin vörulína á bið,“ segir Högni.

Hann segir viðtökurnar við versluninni hafa farið fram úr öllum væntingum.

„Það er mikið er um símtöl og tölvupósta með spurningum og áhuga á vörunum. Einnig hafa margar hárgreiðslustofur sýnt vörunum mikinn áhuga sem hefur tekið okkur á aðra spennandi braut sem heildsala. Við erum að vinna að nýrri síðu fyrir þann part fyrirtækisins og erum nú þegar að selja nokkrum stofum vörurnar, án þess að hafa auglýst það nokkuð,“ segir Högni.

Högni segir olíurnar vinsælastar. „Allir geta notað olíu, hvort sem …
Högni segir olíurnar vinsælastar. „Allir geta notað olíu, hvort sem um ræðir lítinn hýjung eða fullskeggjaðan karlmann.“ mbl.is/Árni Sæberg

Smá olía breytir miklu

Hann segir það hafa færst í aukana að karlmenn hugsi vel um skeggið sitt og að vakning hafi orðið um mikilvægi góðra skeggvara. „Það þekkja allir karlmenn þennan kláða, þurrkinn og flösuna sem er svo auðvelt að losna við með smávegis olíu,“ segir Högni en olíurnar eru vinsælustu vörur verslunarinnar.

„Olíurnar frá Grave Before Shave eru vinsælastar. Olían er svo þægileg og á viðráðanlegu verði. 30 ml flaska er að duga mönnum í allt að 3 mánuði. Allir geta notað olíu, hvort sem um ræðir lítinn hýjung eða fullskeggjaðan karlmann. Sjampóin eru einnig mjög vinsæl þar sem ekki er ráðlagt að nota sama sjampó í skeggið og þú notar í hársvörðinn þar sem andlitið er mun viðkvæmara en höfuðleðrið,“ segir Högni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK