Um 50 milljarðar í seðlum og mynt

Í dag eru um 2,36 milljónir 10 þúsund króna seðla …
Í dag eru um 2,36 milljónir 10 þúsund króna seðla í umferð, samtals um 23,6 milljarðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í kjölfar fjármálahrunsins hér á landi árið 2008 fór hlutfall reiðufjárnotkunar úr 1% yfir 2% og hefur allar götur síðan þá verið nálægt því marki. Skýringar hafa undanfarin ár verið gefnar á þessari breytingu og að líklegast myndi þetta breytast til baka. Aftur á móti hefur það ekki gengið eftir og fyrri skýringar eiga ekki við lengur. Þetta kemur fram í ritinu Fjármálainnviðir sem Seðlabankinn gaf út í dag.

Erlendir ferðamenn skýri hluta fjölgunarinnar

Fyrir fjármálaáfallið var Ísland það land þar sem notkun reiðufjár var minnst. Síðustu ár hefur notkun reiðufjár í Svíþjóð og Noregi minnkað á sama tíma og notkunin hefur staðið í stað á Íslandi. Þessi þróun hefur m.a. leitt til þess að Svíar og Norðmenn nota nú reiðufé hlutfallslega minna en Íslendingar.

Í heild voru um 49,9 milljarðar króna í seðlum og mynt í umferð utan Seðlabankans og innlánsstofnana í lok október á þessu ári. Tólf mánaða aukning reiðufjár til októberloka 2016 var 10,6%. Aukning á árinu 2015 var 4,9 milljarðar eða 11,1%, en var 5,8% árið á undan og er þetta meiri aukning en á árunum 2013 og 2014, að því er kemur fram í ritinu.

Segir Seðlabankinn að þessa aukningu sé ekki hægt að skýra bara með verðbólgu og hagvexti. Líklegt sé að fjölgun erlendra ferðamanna skýri hluta þessarar breytingar.

113,6 milljónir krónupeninga í umferð

Mynt í umferð var samtals 3,2 milljarðar í árslok 2015 og jókst um 250 milljónir milli ára, eða um 8,9%, en var 5,2% árið á undan. Tólf mánaða aukning myntar í umferð til októberloka í ár var 11,7%. Hlutdeild 100 krónu peningsins í verðmæti myntar í umferð var 61,1%, en mest er af krónupeningum í umferð, en þeir eru samtals 113,6 milljónir stykkja.

Mynd/Seðlabanki Íslands

Í árslok 2015 var verðmæti útgefinna seðla 52,5 milljarðar, eða um 14,8 milljónir stykkja. Í október 2013 var nýr 10.000 króna seðill settur í umferð. Innleiðing hans hefur breytt nokkuð samsetningu seðla í umferð. Núna eru um 43% af verðmæti útgefinna seðla 10.000 króna seðlar eða um 23,6 milljarðar, hlutdeild 5.000 króna seðla hefur minnkað úr 86% í 44%. Um 10% af verðmæti seðla í umferð eru 1.000 króna seðlar.

Eyða 5 milljónum seðla á ári

Í Fjármálainnviðum er greint frá því að Seðlabankinn greini að jafnaði um 10 milljónir seðla á ári í sérstakri seðlagreiningarvél. Hún eyðir meðal annars ónothæfum seðlum. Fjöldi seðla sem eytt er ár hvert hefur nokkur veginn staðið í stað þrátt fyrir fjölgun seðla í umferð. Að jafnaði eyðir Seðlabankinn um 5 milljónum ónothæfra seðla á ári.

Ritið Fjármálainnviði má í heild nálgast hér.

10 þúsund króna seðillinn breytti nokkuð samsetningu seðla í umferð …
10 þúsund króna seðillinn breytti nokkuð samsetningu seðla í umferð hér á landi. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK