Meiri velgengni en reiknað var með

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sú mynd sem blasir við í efnahags- og peningamálum er á heildina litið góð og velgengnin hefur verið meiri en reiknað var með í haust. Þetta kom fram í inngangsorðum Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um störf peningastefnunefndar í morgun.

Fulltrúar peningastefnunefndar komu síðast á fund efnahags- og viðskiptanefndar 29. ágúst  síðastliðinn.  Sú mynd sem þá blasti við í efnahags- og peningamálum var á heildina litið góð, að sögn seðlabankastjóra. Þjóðarbúskapurinn hafði náð stigi fullrar atvinnu og gott betur og útlit var fyrir myndarlegan hagvöxt árin 2016 og 2017.

Sagði Már að þá hefðu verið áhyggjur af því að það gæti leitt til ofhitnunar þjóðarbúskaparins sem í framhaldinu gæti brotist út í verðbólgu umfram markmið. Það jók þessar áhyggjur að hækkun launa var langt umfram framleiðniaukningu og verðbólgumarkmið. Einnig voru áhyggjur af því að nær í tíma myndi krónan ofrísa í aðdraganda losunar fjármagnshafta. Seðlabankinn var af þeim sökum að kaupa gjaldeyri til að draga úr líkum á slíku. Markmið bankans var einnig að koma gjaldeyrisforða í æskilega stærð áður en stór skref í losun fjármagnshafta yrðu tekin.

„Þrátt fyrir þetta hafði verðbólga verið undir markmiði í á þriðja ár, verðbólguhorfur höfðu batnað og verðbólguvæntingar á nær alla mælikvarða höfðu lækkað í markmið. Ljóst var að sögulegur árangur við stjórn peningamála var að nást,“ sagði Már.

Meiri hagvöxtur og viðskiptaafgangur en minna atvinnuleysi

„Stóra myndin sem blasir við nú er í grundvallaratriðum hin sama nema hvað að velgengin hefur verið meiri en þá var reiknað með,“ sagði Már. Benti hann á að hagvöxtur í fyrra og í ár verði mun meiri, viðskiptaafgangur einnig en atvinnuleysi minna.

Þá hafa verðbólguhorfur batnað og kjölfesta verðbólguvæntinga við markmið hefur styrkst. Nefndi Már að því sé nú spáð að verðbólga verði rétt undir markmiði í ár og nái hámarki á öðrum ársfjórðungi 2019 og verði þá tæplega 3%, en í spá Seðlabankans í ágúst var spáð að verðbólgan næði hámarki í tæplega 4% á öðrum ársfjórðungi 2018. 

„Margt hefur lagst á eitt til að búa til þessa niðurstöðu. Framleiðniaukning er meiri en áætlað var í ágúst sl. og meðal annars þess vegna er hækkun launakostnaðar á framleidda einingu minni. Viðskiptakjör hafa batnað meira en reiknað var með í ágúst. Krafturinn í ferðaþjónustu hefur reynst meiri. Af þessum sökum er gengi krónunnar um þessar mundir tæplega 10% sterkara en það var þegar við hittum nefndina í ágúst, þrátt fyrir mikil kaup Seðlabankans á gjaldeyri,“ sagði Már.

Vísbendingar um að vextir í viðskiptalöndum fari hækkandi

Að lokum sagði Már að margt bendi til þess að jafnvægisraunvextir Seðlabankans hafi lækkað frá því fyrir fjármálakreppu. Sagði hann Peningastefnunefndina hafa að undanförnu rætt á fundum sínum hve mikil þessi lækkun gæti verið, en um það ríkir töluverð óvissa.

„Það þyrfti hins vegar að vera ansi mikið ef 2½% raunvextir, eins og þeir eru nú miðað við verðbólguvæntingar, teldust mjög óeðlilega háir, sérstaklega ef horft er til þess að töluverð spenna hefur myndast í þjóðarbúskapnum,“ sagði Már.

„Spurningin um vaxtastigið tengist einni af helstu áskorunum peningastefnunnar um þessar mundir. Hún er sú að vextir erlendis eru í sögulegu lágmarki á sama tíma og vaxandi spennu gætir í innlendum þjóðarbúskap. Þetta gerir það erfiðara en ella að halda uppi því vaxtastigi hér á landi sem þarf til að ná jafnvægi á milli eftirspurnar og framboðs á innlendum framleiðsluþáttum og halda verðbólgu við markmið til lengri tíma litið. Fjárstreymistæki og fjármagnshöft gera það auðveldara en ella en fjármagnshöftin verða fljótlega horfin og fjárstreymistæki var ekki hugsað til að vera í stöðugri notkun. Þessar aðstæður eru þó að hluta til tímabundnar. Vaxandi vísbendingar eru um að vextir í helstu viðskiptalöndum munu fara hækkandi á næstu misserum og innlend spenna mun að lokum hjaðna vegna hagstjórnar eða markaðsaðlögunar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK