Opna bókhaldið innan tíðar

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Golli

Gert er ráð fyrir því að vefurinn opnirreikningar.is fari í loftið innan tíðar en til að byrja með verður þar að finna upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta. Ekki  verða birtar upplýsingar aftur í tímann en stofnanir ríkisins verða hluti af verkefninu í áföngum og er gert ráð fyrir að innleiðing stofnana í A-hluta ríkissjóðs taki um eitt ár.

Þetta kemur fram á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins en það hefur unnið að því undanfarin misseri að auka aðgengi að fjárhagsupplýsingum ríkisins með því að gera reikninga úr bókhaldi ríkisins aðgengilega almenningi. Verkefnið er unnið í samræmi við fjármálastefnu fyrir árin 2017-2022, fjárlög fyrir árið 2017 og stefnuáætlun ríkisstjórnarinnar um að stíga markviss skref til þess að opna bókhald ríkisins.

Á vefnum verður hægt að velja færslur út frá númeri stofnana, tegunda og/eða kennitölu birgja og dagsetningu. Einnig verður mögulegt að skoða fylgiskjöl með reikningum.

„Sérstaklega hefur verið hugað að öryggismálum og sjónarmiðum um persónuvernd og fyrirkomulag birtingar verður með þeim hætti að viðkvæmar persónuupplýsingar verða undanþegnar, s.s. vegna læknisheimsókna, bóta- eða launagreiðslna. Mögulegt verður að takmarka birtingu fylgiskjala einstakra reikninga vegna öryggis- og persónuverndarsjónarmiða eða viðkvæmra viðskiptahagsmuna, t.a.m. þegar birting er til þess fallin að raska samkeppni,“ segir á vef ráðuneytisins.

„Í tengslum við birtingu greiðsluupplýsinga er birgjum bent á að ekki er æskilegt að viðkvæmar persónuupplýsingar eða aðrar upplýsingar sem varða viðkvæma öryggis- eða viðskiptahagmuni birtist í línum reikninga. Af þessum sökum er mikilvægt að birgjar hugi að uppsetningu þeirra reikninga sem gefnir eru út á þeirra vegum til ríkisins. Líkur eru á að reikningar sem eru rangt uppsettir verði endursendir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK