161 leyfi fyrir heimagistingu

Alls hafa 161 sótt um leyfi fyrir tímabundinni heimagistingu samkvæmt …
Alls hafa 161 sótt um leyfi fyrir tímabundinni heimagistingu samkvæmt nýjum lögum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Alls hafa 161 sótt um leyfi til að reka heimagistingu frá ársbyrjun þegar nýjar reglur tóku gildi. Þeir sem leigja út heimili sín á Airbnb í allt að níutíu daga á ári geta sótt um leyfið. Sé ætlunin að leigja heimili sitt í lengri tíma þarf að sækja um rekstrarleyfi. Þegar litið er yfir útgefin rekstrarleyfi frá upphafi ársins má aðeins finna örfá dæmi um einstaklinga sem virðast vera að leigja út heimili sín.

Alls hafa um 1.000 rekstrarleyfi til gististaða verið gefin út frá upphafi ársins en langflest eru þau til einkahlutafélaga, gistiheimila og hótela.

Með lagabreytingunni um áramótin voru aðeins gerðar breytingar á umsóknum um leyfi til að reka heimagistingu. Ekki voru gerðar breytingar á skattlagningu tekna af heimagistingu og þær alls ekki gerðar skattfrjálsar. Einstaklingur sem ætlar að bjóða heimagistingu þarf að tilkynna sig til sýslumanns og við skráningu ber að staðfesta að til staðar sé starfsleyfi heilbrigðisnefndar, húsnæðið þarf að uppfylla kröfur í reglugerð um brunavarnir, það þarf að hafa hlotið samþykki sem íbúðarhúsnæði og húsnæðið þarf að teljast fullnægjandi með tilliti til hollustuhátta samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Bara í Reykjavík eru um tvö þúsund virk gistirými boðin til leigu á Airbnb um þessar stundir.

Staðsetning virkra gistirýma á Airbnb í Reykjavík.
Staðsetning virkra gistirýma á Airbnb í Reykjavík. Skjáskot/Skýrsla Íslandsbanka um ferðaþjónustu

Mörg félög með margar eignir og mikla veltu 

Sigurður Jensson, sviðsstjóri eftirlitssviðs ríkisskattstjóra, segir þessar tölur ekki gefa rétta mynd af skattheimtu af heimagistingu. Segir hann erfitt að fullyrða neitt um skattskil samkvæmt nýjum lögum þar til í lok ársins. Þá segir hann dæmi um að menn séu ekki með leyfi en samt að telja fram tekjur. 

„Við höfum séð það í mörgum tilvikum að menn eru að telja þetta fram sem langtímaleigu. Og erum að sjá umtalsverðar fjárhæðir hjá mönnum sem eru með margar eignir. Þetta er komið svolítið út í þessa hefðbundnu atvinnustarfsemi. Það er orðinn umtalsverður fjöldi inni á þessari síðu sem er með þetta í gegnum félagaformið. Sem er svolítið annað en andi þessarar síðu var í upphafi. Þessi deilihagkerfishugsun,“ segir Sigurður. 

„Það eru kannski færri en menn héldu sem ætla að vera með þetta í tímabundinni leigu. Þeir vilja meiri veltu og lengri leigutíma en tilgreint er í nýju lögunum. Það verður þá að meta það og ekki er hægt að gera það fyrr en lengra er liðið,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að skattyfirvöld séu hægt og bítandi að ná utan um þessa starfsemi. „Við höfum endurákvarðað í mörgum málum tengdum þessu og öðrum höfum við lokað á grundvelli þess að menn hafa verið að telja þetta rétt fram. Fyrst var þetta kannski einhver vankunnátta en manni sýnist að fólk sé farið að læra inn á þetta,“ segir hann.

Talið fram á mismunandi hátt

Flækjustigið fyrir skattyfirvöld er þó mikið. „Það er verið að telja þetta fram á svo mismunandi hátt. Það þarf að leita að þessu inni í einkahlutafélagi, á rekstrarskýrslu einstaklings og þar sem menn eru að telja fram aðrar leigutekjur. Þetta er snúinn samanburður en ég held að þetta sé ekki eins svart og menn vilja vera láta þó svo að auðvitað mætti betur gera í þessum efnum,“ segir Sigurður.

Ríkisskattstjóri sinnir eftirliti með heimagistingu á margvíslegan hátt.
Ríkisskattstjóri sinnir eftirliti með heimagistingu á margvíslegan hátt. mbl.is/Golli

Skoða millifærslur og gagnagrunninn

Þá séu upplýsingarnar á vef Airbnb ekki persónugreinanlegar og það lengir einnig og þyngir eftirlitið. „Við höfum í gegnum síðasta ár skoðað þessa hluti út frá nokkrum hliðum og meðal annars litið á innborganir erlendis frá inn á tékkareikninga og kreditkort,“ segir hann.

„Síðan höfum við rannsakað þennan gagnagrunn og tekið upplýsingar um þá aðila sem eru með stærstu eignirnar og flestar eignir. Það tekur smá tíma að rekja þetta allt. Þeir sem eru tilgreindir á síðunni eru ekki endilega eigendur og þar fram eftir götum. Það eru ýmis flækjustig en við erum að sinna þessu á margvíslegan hátt og höfum ágæta tilfinningu fyrir þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK